138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[05:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti 1. minni hluta við 2. umr. þessa frumvarps lögðum við til að þessu máli yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Því miður var sú tillaga felld. Rökstuðningur okkar fyrir þeirri tillögu er að þetta frumvarp sé vanbúið, að markmiðið með breytingunum sem kveðið er á um sé í hæsta máta óskýrt og verklag og undirbúningur málsins geti engan veginn talist samræmast vönduðum stjórnsýsluháttum. Þess vegna lögðum við þetta til. Sú tillaga var því miður felld.

Þess vegna leggjum við, ég ásamt hv. þm. Bjarna Benediktssyni, fram breytingartillögu við 3. umr. málsins sem er svohljóðandi:

„Í stað 1.–20. gr. komi ein ný grein, svohljóðandi:

Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður sem orðast svo:

Utanríkisráðherra skal skipa verkefnisstjórn sem hefur það að hlutverki að gera tillögur til ráðherra um ráðstöfun verkefna Varnarmálastofnunar og niðurlagningu stofnunarinnar í kjölfar þeirra ráðstafana. Verkefnisstjórnin skal skipuð fimm einstaklingum og skal stjórnarandstaða tilnefna tvo þeirra. Við tillögugerð sína skal verkefnisstjórnin hafa samráð við Varnarmálastofnun og afla sér faglegrar þekkingar á framkvæmd öryggis- og varnarmála. Eigi síðar en 1. október 2010 skal verkefnisstjórnin skila tillögum í frumvarpsformi til utanríkisráðherra sem leggur þær fram á Alþingi ásamt öðrum viðeigandi tillögum að breytingum á lögum þessum.”

Rökstuðningur okkar fyrir þessu er í stuttu máli sá að þetta eru grundvallaratriði sem varða framkvæmd öryggis- og varnarmála og það er grundvallaratriði að ákvarðanir um skipulag þeirra verði teknar af Alþingi. Það er óeðlilegt að löggjafarvaldið afsali sér ákvörðunarvaldi um skipulag og framkvæmd verkefna af þessu tagi til framkvæmdarvaldsins. Því verður að kveða á um í frumvarpi að breytingar á fyrirkomulagi og vistun verkefna skuli ákveðin með lögum.

Við leggjum til að utanríkisráðherra skipi verkefnisstjórn og það er mikilvægt að þverpólitísk sátt ríki um framkvæmd og skipulag öryggis- og varnarmála. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnarandstaðan komi að undirbúningsvinnunni. Það er ekki nóg, eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur boðað, að stefnumótunin fari fram þegar ákvarðanir hafa verið teknar um þessi mál.

Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er eftirfarandi: Við leggjumst ekki gegn því að gerðar verði breytingar á núverandi skipulagi og Varnarmálastofnun verði lögð niður. Hins vegar viljum við að þetta verði gert í réttri röð og að breytingarnar verði faglegar og vandlega undirbúnar, mörkuð verði skýr stefna um framkvæmdina og hlutverk verkefnisstjórnarinnar verði skýrt. Í ljósi mikilvægis þess að Alþingi eigi ákvörðunarvald um fyrirkomulag og framkvæmd þessa málaflokks leggjum við í Sjálfstæðisflokknum til að verkefnisstjórn skili utanríkisráðherra tillögum í frumvarpsformi eigi síðar en 1. október og utanríkisráðherra leggi síðan frumvarpið fyrir Alþingi. Skýrt verði kveðið á um í lögum að verkefnisstjórn skuli eiga gott samstarf við Varnarmálastofnun og afla sér faglegrar þekkingar á framkvæmd öryggis- og varnarmála meðan unnið er að frumvarpi til breytinga á varnarmálalögum sem að vinnu lokinni verður skilað til utanríkisráðherra. Markmið okkar með þessari tillögu er að koma í veg fyrir það slys sem hér er í uppsiglingu með því að stofnunin verði lögð niður, verkefnunum dreift ómarkvisst hingað og þangað án nokkurrar fyrirsjáanlegrar hagræðingar, án nokkurra fyrirsjáanlegra markmiða annarra en þeirra að friðþægja vinstri græna í stjórnarsamstarfi þar sem þeir hafa þurft að kyngja meiru en gott þykir.