138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða.

660. mál
[05:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða. Málið hefur verið ákaflega umdeilt árum saman og hér er reynt að finna lausn á því. Ég tel að það þurfi að ræða þetta ítarlega, ekki síður en vatnalögin sem eru síðar á dagskrá. Eigi að síður, frú forseti, þá er tilgangur þessarar umræðu fyrst og fremst að koma málinu í þokkalegum friði til nefndar sem síðan fjallar um það. Með tilliti til þess að langt er liðið á nótt ætla ég í örstuttu máli að gera grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins sem má skipta í fjóra þætti.

Í fyrsta lagi er lagt til að verndar- og nýtingaráætlun gildi til 12 ára. Á fjögurra ára fresti skal Alþingi taka í formi þingsályktunar afstöðu til flokkunar virkjunarkosta fallvatna og háhitasvæða á landinu. Þannig er lagt til að virkjunarkostir og svæði séu flokkuð í þrjá flokka, þ.e. nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Frumvarpið heimilar stjórnvöldum en skyldar þau ekki til að veita leyfi til orkuvinnslu vegna þeirra virkjunarkosta sem falla í nýtingarhluta áætlunarinnar. Verndar- og nýtingaráætlunin felur því ekki í sér afstöðu þingsins til þess hvaða virkjunarkostir skulu nýttir á tímabilinu heldur eingöngu hvaða virkjunarkostir geti farið í hefðbundið leyfisveitingaferli og hvaða virkjunum sé heimilt að gera ráð fyrir í skipulagi sveitarfélaga.

Aftur á móti er gert ráð fyrir því að áætlunin sé bindandi við gerð skipulagsáætlana. Meginreglan er því að innan fjögurra ára frá samþykkt verndar- og nýtingaráætlana þurfi sveitarstjórnir að breyta aðal- og deiliskipulagsáætlun til samræmis við hana. Frá þessari meginreglu er þó gerð sú undantekning að sveitarstjórn er heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt verndar- og nýtingaráætlun í allt að tíu ár.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að áður nefnd þingsályktun hafi skýra stöðu að lögum og að hún bindi hendur stjórnvalda við leyfisveitingar, gerð skipulagsáætlana og liggi til grundvallar ákvarðanatöku um friðlýsingu landsvæða.

Í þriðja lagi er kveðið á um að faglegur undirbúningur að síðari verndar- og nýtingaráætlunum verði í höndum ráðgefandi verkefnisstjórnar sex manna. Gert er ráð fyrir að sú stjórn dreifi sér líkt og fyrri verkefnisstjórnir á stjórnvöld og stofnanir sem eru starfandi og hafi víðtækt samráð við frjáls félagasamtök, hagsmunaaðila og aðra þá sem leita getur þurft til.

Í fjórða lagi hefur frumvarpið að geyma ákvæði um undirbúning að tillögu að verndar- og nýtingaráætlun fyrir hvert 12 ára tímabil. Þannig er lagt til að verkefnisstjórn byggi faglegt mat sitt á vinnu faghópa á upplýsingum sem fyrir liggja um þætti sem taka skal tillit til í slíkri verndar- og nýtingaráætlun og beiti við það samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum. Verkefnisstjórninni er ætlað að leita eftir samráði og faglegri aðstoð hjá viðkomandi stofnunum og stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum, hagsmunaaðilum og öðrum aðilum. Þegar niðurstaða faghóps liggur fyrir ber verkefnastjórn að vinna drög að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunarniðurstöðurnar. Það er rétt að geta þess að hvað gagnaöflun varðar er miðað við að verkefnisstjórn leiti umsagnar Umhverfisstofnunar og Fornleifaverndar ríkisins um hvort fyrirliggjandi gögn varðandi einstaka virkjunarkosti séu nægjanleg til að meta þá þætti sem á að taka tillit til í slíkum áætlunum. Þá er mikilvægt að leggja áherslu á það hér að taka verður mið af því að um heildstætt frumvarp er að ræða en ekki mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda líkt og fer fram á grundvelli laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki gerð sambærileg krafa um gagnaöflun í tengslum við vinnu verkefnisstjórnarinnar og fagaðila eins og gert er við mat á umhverfisáhrifum.

Þegar kynningar- og samráðsferli er lokið leggur verkefnisstjórn fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæði í samræmi við flokkunina. Ráðherra tekur svo tillögur verkefnisstjórnar til skoðunar og gengur frá tillögum um verndar- og nýtingaráætlun. Ef lagðar eru til breytingar á tillögum verkefnisstjórnar þá skal leita umsagnar um þær og kynna almenningi áður en tillaga að verndar- og nýtingaráætlun er lögð fram á Alþingi.

Frú forseti. Þessu frumvarpi er ætlað að skapa lagaumgjörð um þá vinnu sem hefur farið fram síðasta áratuginn við undirbúning að rammaáætlunum um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Auk þess að skýra stöðu hennar gagnvart stjórnvöldum til hliðsjónar við gerð skipulagsáætlana og veitingar opinberra leyfa, þar með talinna rannsóknar-, nýtingar- og virkjunarleyfa. Þá er því, eins og fram hefur komið í þessari stuttu framsögu á frumvarpinu, ætlað að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi vinnu við mat og flokkun á virkjunarkostum.

Að þessu sögðu, frú forseti, mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað áfram til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.