138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar klukkan er 25 mínútur yfir 5 að morgni get ég ekki lengur orða bundist. Ég óska eftir því að á næstu fimm mínútum hugi forseti að því hvernig við munum ljúka þessum fundi. Ég tel algerlega einsýnt að menn kalli saman formenn þingflokka og ræði þessa fáránlegu stöðu sem upp er komin, þingfundur haldinn fram undir rauðan morgun. Það lá fyrir samkomulag milli formanna flokkanna um ákveðna dagskrá. Frá henni var gengið í trausti þess að menn mundu beita mátulegum skammti af heilbrigðri skynsemi við stjórn þingsins. Auðvitað getur samkomulag af þessum toga aldrei orðið annað en leiðbeinandi um það hvernig við viljum ljúka þingstörfunum. En að halda áfram sleitulaust til kl. hálfsex án þess að bjóða einu sinni upp á extra sterkt kaffi eða kannski egg og beikon í morgunsárið er auðvitað tóm della. (Forseti hringir.) Ég fer fram á það að formenn þingflokkanna verði kallaðir saman svo hægt verði að ljúka þessum fundi.