138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi fundur er orðinn hrein langavitleysa. Gengið var frá samkomulagi um dagskrá þingsins sem hefur farið úr böndunum. Það sjá auðvitað allir að þetta ber að endurskoða. Klukkan hálfsex að morgni erum við enn þá að ræða stórmál. Hugmyndir eru um að boða til annars fundar. Það er ekki nokkur bragur á því að vinna í þessum málum með þessum hætti.

Það væri auðvitað miklu eðlilegra að slíta fundinum nú þegar og boða til nýs fundar á morgun á skikkanlegum tíma. Þar getum við farið yfir dagskrána, lokið henni og rætt önnur mál sem við ætluðum að ræða á morgun. Þessi vinnubrögð eru þinginu ekki til sóma og skila ekki árangri í þeim mikilvægu málum sem við erum að ræða. Ég hvet hæstv. forseta til þess að vera ekki með svona spaug eins og það að hæstv. forseti geti látið hella upp á sterkt kaffi. Hæstv. forseti verður auðvitað að taka þessi mál alvarlega. Virðing þingsins er í húfi.

(Forseti (SF): Forseti brást svona við þar sem þetta var tillaga frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni.)