138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki boðlegt að óskum okkar skuli ekki svarað betur en þetta. Það er ekki boðlegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli vera með dylgjur um að við nennum eiginlega ekki að ræða einhver mál eða viljum ekki taka þau á dagskrá. Ég held að við höfum sýnt þann vilja sem þarf til að ljúka þessu. En það er eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í eldhúsdagsumræðum, við tökum þann tíma sem þarf til að fara vel yfir öll mikilvæg mál sem þingið þarf að ljúka. Var ekkert að marka þau orð hans? Það var nóg gert úr þeim í fjölmiðlum. Það var hann sem sagði að við tækjum þann tíma sem við þyrftum til að ljúka stórum málum og við erum tilbúin í það, við lýsum því yfir. Okkur liggur ekkert á heim klukkan tvö á morgun. Við getum verið hér fram á annað kvöld og lengur ef þarf. Við erum tilbúin til að ljúka málum með sómasamlegum hætti. Það er enginn bragur að því að bjóða upp á þetta og ég krefst þess, virðulegi forseti, að okkur sé sýnd sú virðing að það sé kallaður saman fundur með formönnum þingflokka og farið yfir stöðuna. Við höfum ekki sýnt annað en góðan vilja (Forseti hringir.) til að vera í fullu samstarfi um að ljúka þingstörfum á þessu sumri.