138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mér þykir auðvitað vænt um það að forseti hafi af lítillæti sínu ákveðið að kalla þingflokksformenn til fundar til að fara yfir það stjórnleysi sem ríkir á Alþingi. Klukkuna vantar 20 mínútur í sex og hæstv. ráðherrar eiga enn þá eftir að mæla fyrir stórum frumvörpum. Eitt þeirra mála er frumvarp til vatnalaga sem búast má við að verði fjörugar umræður um. Ég er með skýrslu vatnalaganefndar sem ég stóð að að semja upp á 215 blaðsíður, nefnd sem hæstv. utanríkisráðherra skipaði á sínum tíma. Það er eins gott að hæstv. forseti viti að þingmenn hafa auðvitað ekki sagt sitt síðasta orð um þau mál sem eftir er að mæla fyrir og fjalla um á þinginu. Ég hygg að það sé því mikilvægt að hæstv. forseti gefi einhverjar (Forseti hringir.) vísbendingar um hversu lengi á að halda áfram þannig að þingmenn geti t.d. gert einhverjar ráðstafanir um hvernig þeir ætla að sinna börnum sínum (Forseti hringir.) sem vakna núna fljótlega.