138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[05:44]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nýju frumvarpi iðnaðarnefndar Alþingis um að gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, verði frestað til 1. október 2011. Tekist hefur samkomulag milli formanna allra flokka á þingi um þessa lausn sem tryggir að vatnalögin frá 2006 koma ekki til framkvæmda, en í byrjun haustþings verður lagt fram frumvarp til nýrra heildstæðra vatnalaga sem ætlað er að leysa af hólmi þessi vatnalög frá 2006 og jafnframt gildandi vatnalög frá 1923.

Þetta nýja frumvarp kemur í stað frumvarps iðnaðarráðherra um afnám vatnalaga frá 2006 en bæði þessi frumvörp koma í veg fyrir að þau lög taki gildi þann 1. júlí nk.

Iðnaðarnefnd fjallaði ítarlega um málið og fékk á sinn fund sérfræðinga sem gáfu nefndinni yfirlit um sögu vatnalöggjafar á Íslandi frá þjóðveldisöld með sérstakri áherslu á samanburð á gildandi vatnalögum frá 1923 og vatnalögunum frá 2006. Vatnalögin frá 1923 — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður um einn fund í salnum. Hljóð í salinn. Hljóð í hliðarsal líka. Forseti biður um hljóð í salnum.) (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Vatnalögin frá 1923 eru afar merkileg löggjöf sem átti sér áralangan aðdraganda. Þar er á ferðinni heildarlöggjöf um vatnsréttindi þar sem í reynd er mörkuð sáttargjörð milli almennings og landeigenda, skapaður meðalvegur milli hagsmuna almennings og hagsmuna landeigenda þar sem hagsmunir landeigenda eru háðir skýrum takmörkunum vegna hagsmuna almennings og öfugt. Í lögunum frá 1923 hafa landeigendur rétt til umráða og hagnýtingar yfirborðsvatns á eignarlöndum sínum, en lúta jafnframt ýmsum takmörkunum vegna hagsmuna annarra af nýtingu vatns, þar á meðal almennings. Grunnforsenda laganna er hins vegar sú að vatnið sé ekki undirorpið beinum eignarrétti. Í því sambandi er athyglisvert að rifja upp rökstuðning í meirihlutaáliti svokallaðrar samvinnunefndar þingsins um vatnalagafrumvarpið sem lagt var fram á þinginu 1921 og afgreitt tveimur árum síðar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem minni hlutinn heldur því fram, að vatn sje nú að lögum háð eignarrjetti einstaklinga, og skuli vera það framvegis, álítur meiri hlutinn, að eðlilegra sje, sanngjarnara og þjóðfjelaginu hollara, að vatnið sje undanþegið eignarrjetti í eiginlegum skilningi. Eðlilegra vegna þess, að vatn er að ýmsu leyti óeignarhæft. Sanngjarnara vegna þess, að hjer á landi er miklu meira vatn fyrir hendi en nokkur tiltök eru að landsmenn þurfi á að halda eða geti notað, og þess vegna ekki ástæða til að skifta þessum gæðum náttúrunnar svo misjafnt milli manna, sem verða mundi, ef þeim einum, er land eiga undir vatninu, væri fenginn í hendur eignarrjettur yfir því. Þjóðfjelaginu hollara vegna þess, að á þann verður best girt fyrir það, að einstakir menn nái þeim tökum á fallvötnum landsins, sem þeir eftir atvikum gætu notað sjer, annaðhvort til að leggja fjárkvaðir á notendur orkunnar, ef eitthvert þeirra yrði virkjað til almenningsnota eða handa nytsömum fyrirtækjum, eða þá sem grundvöll fyrir kröfu um virkjunarrjett sjer til handa, jafnvel þótt virkjun þætti koma í bága við almenningshagsmuni.“

Í þessum orðum kemur skýrt fram að deilan um eignarrétt á vatni var sprelllifandi í upphafi síðustu aldar og blandaðist m.a. harðvítugum deilum um uppkaup fjársterkra aðila, innlendra sem erlendra, á fallvötnum landsins til virkjana. Fossalög voru sett 1907 til að reisa tilteknar skorður við þessum uppkaupum á fossum landsins, en umræður um fossamál, virkjanir og eignarhald auðlinda héldu áfram næstu árin og leiddu m.a. til þess að lagt var fram ítarlegt frumvarp til vatnalaga árið 1919.

Í meirihlutaáliti þess frumvarps kemur skýrt fram að tekist var á um hugmyndafræðilegan grundvöll vatnalöggjafar þar sem kostirnir voru tveir, séreignarstefna og það sem kallað var allsherjarstefna. Séreignarstefnan fól í sér að vatn væri undirorpið eignarrétti landeiganda, en þó yrðu landeigendur að þola miklar takmarkanir á réttindum sínum vegna réttinda annarra. Allsherjarstefnan fól hins vegar í sér að vatnið skyldi lúta forræði ríkisins eða héraða, en landeigendum væri heimilt að nýta vatnið meðan það færi ekki í bága við lögmæta hagsmuni annarra einstaklinga eða almennings.

Um þetta var deilt næstu fjögur árin á þinginu, en niðurstaðan varð sú að vatnalagafrumvarp var lagt fram í fimmta sinn á þinginu 1923 og varð að lögum það ár. Grundvallarforsenda þessara laga var í anda allsherjarstefnunnar, þ.e. að vatnið væri ekki undirorpið beinum eignarrétti, en hins vegar voru landeigendum tryggðar víðtækar nýtingarheimildir með þeim hætti sem tilgreint er í lögunum. Réttindi þeirra voru skilgreind með jákvæðum hætti, þ.e. í lögunum voru sérstaklega tilgreind tæmandi þau réttindi til umráða og hagnýtingar sem landeigendur hefðu og þá áskilið að þeir hefðu ekki önnur réttindi til nýtingar vatns en þau sem tilgreind voru í lögunum. Þessi niðurstaða var sáttargjörð, málamiðlun milli andstæðra sjónarmiða þeirra sem vildu tryggja eignarrétt ríkisins, og þar með þjóðarinnar, á vatninu og hinna sem vildu að vatnið væri eign landeigenda sem nytu þeirra forréttinda að búa yfir vatni í eignarlöndum sínum.

Virðulegi forseti. Ég legg sérstaka áherslu á þetta. Lögin frá 1923 fólu í sér sögulega sátt sem náðist eftir áralanga deilu um eignarhald á vatninu, þar á meðal fallvötnum landsins, um réttinn til að virkja, en ekki síður um rétt almennings til umferðar um vatn, til baða, til nýtingar vatns í þágu heimilisstarfa, bústarfa og iðnaðarstarfa. Sáttin fólst í viðurkenningu á gagnkvæmum réttindum almennings og landeigenda þar sem hagsmunir landeigenda voru takmarkaðir vegna hagsmuna almennings, og öfugt. Það er þess vegna sem vatnalögin frá 2006 urðu svo umdeild, þau rufu þessa sáttargjörð. Þar tóku stjórnvöld málstað séreignarsinna og gerðu að sínum, en settu hagsmuni almennings skör lægra. Þar með var raskað því vel ígrundaða jafnvægi er byggði á meðalhófi sem var leiðarljós vatnalaganna frá 1923.

Virðulegi forseti. Meginágreiningurinn um vatnalögin frá 2006 snerist um réttindaákvæði 4. gr. laganna þar sem réttindi landeigenda yfir vatni á eigin landi eru skilgreind í fyrsta sinn sem eignarréttur og að auki með neikvæðum hætti, þ.e. landeigendum eru tryggð öll eignarráð yfir vatni í nútíð og framtíð nema þau réttindi sem sérstaklega eru undanskilin í lögunum sjálfum. Í þessu atriði liggur meginbreytingin frá vatnalögunum frá 1923. Eignarráð landeigenda eru aukin með því að þeim eru tryggð full réttindi yfir ófyrirsjáanlegum nýtingarmöguleikum vatns í framtíðinni, réttindum sem gætu tryggt þeim gríðarleg verðmæti með nýjum vinnsluaðferðum sem ekki er hægt að sjá fyrir í dag.

Enginn vafi er á því að vatnalögin frá 2006 voru hluti af framsókn frjálshyggjunnar í íslenskum stjórnmálum á þessum árum þar sem bylgja einkavæðingar reið yfir landið. Það sem stingur hins vegar í augu er í hve litlu samræmi þessi stefnubreyting var við þróunina í nágrannalöndum okkar. Þar hefur þróunin undanfarin ár verið í þveröfuga átt, m.a. í samhengi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Stjórnvöld á Norðurlöndum hafa þannig verið að styrkja almannaréttinn, auka áherslu á umhverfisvernd og ábyrga auðlindanýtingu með það fyrir augum að ná jafnvægi milli nýtingar og verndar. Þarna skera íslensku vatnalögin frá 2006 sig úr með því að vera fyrst og fremst lög um nýtingu með áherslu á styrkingu séreignarréttarins.

Í norrænni löggjöf er meginreglan sú að landeigendur hafa ráðstöfunarrétt gagnvart vatni í eigin eignarlöndum með þeim takmörkunum sem sett eru í löggjöf viðkomandi landa, en í norskum, sænskum og dönskum rétti er skýrt að þessi réttur felur ekki í sér eignarrétt yfir vatninu sem efni, með vísan til hliðstæðra raka og meiri hluta vatnalaganefndar Alþingis árið 1921 um að vatn væri í eðli sínu óeignarhæft.

Vatnalögin frá 2006 vöktu upp miklar deilur hér á þinginu og í samfélaginu sem lyktaði með því að sátt náðist um að fresta gildistöku laganna. Þeim hefur síðan verið frestað tvívegis og nú er lagt til að þeim verði enn frestað og þá í síðasta sinn þar til nýtt frumvarp iðnaðarráðherra til vatnalaga hefur verið lögfest hér í þinginu. Þverpólitísk nefnd lagði fram tillögur haustið 2008 sem síðan voru unnar í frumvarpsform í annarri vatnalaganefnd er skilaði af sér 1. desember sl. Iðnaðarráðherra kynnti iðnaðarnefnd frumvarpsdrögin á dögunum en lét þess jafnframt getið að skoða þurfi ákveðin lykilatriði þess betur til að tryggja að gætt sé vandlega að almannahagsmunum.

Ráðherra hefur falið hæstaréttarlögmönnunum Ástráði Haraldssyni og Karli Axelssyni, lögmönnum sem njóta trausts stjórnar og stjórnarandstöðu, að fara í sameiningu yfir frumvarpsdrögin og svara afdráttarlaust lykilspurningum um almannaheill og skilgreiningar á nýtingarrétti. Lögmönnunum er ætlað að skila niðurstöðum sínum í lok sumars með það fyrir augum að nýtt frumvarp verði lagt fram strax í byrjun haustþings.

Virðulegi forseti. Síðustu daga og vikur höfum við fundið fyrir vaxandi ótta í samfélaginu við þá tilhugsun að vatnalögin frá 2006 tækju gildi þann 1. júlí nk. Almenningur hefur látið skoðun sína í ljósi með afgerandi hætti og hefur skilaboðum um að stöðva gildistöku laganna rignt yfir þingheim, í hundruða ef ekki þúsunda tali. Nú hefur tekist sátt hér á Alþingi sem eyðir þessum ótta. Niðurstaðan er sú að hin umdeildu vatnalög frá 2006 munu ekki taka gildi. Núgildandi lög frá 1923 munu gilda áfram þar til Alþingi hefur samþykkt ný vatnalög. Gildistöku hinna umdeildu vatnalaga frá 2006 verður frestað fram til 1. október 2011 sem þýðir á mæltu máli að ef hið nýja frumvarp til vatnalaga sem væntanlegt er í haust verður samþykkt á næsta þingi koma hin umdeildu lög frá 2006 aldrei til framkvæmda.

Meginatriðið er að við þurfum vatnalög sem sátt er um í samfélaginu, lög sem tryggja eignarhald almennings og það verður að vera leiðarljós okkar þegar við fáum til meðferðar nýtt frumvarp til vatnalaga í haust. Hlutverk okkar í þinginu er að gæta hagsmuna almennings og á þeim þrengingartímum sem við lifum í kjölfar efnahagshrunsins er ekkert verkefni mikilvægara en að tryggja framtíðarhagsmuni þjóðarinnar með því að standa vörð um auðlindir náttúrunnar. Tryggasta leiðin til þess er að lögfesta þjóðareign náttúruauðlinda í stjórnarskrá rétt eins og einkaeignarréttinn og það er jafnframt eina leiðin til að skapa frið til framtíðar um nýtingu náttúruauðlinda í landinu okkar.