138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:07]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini því til forseta að halda dagskrá áfram í dag eins og ráð hefur verið fyrir gert í dagskrá þingsins. Það er fundur í utanríkismálanefnd síðar í dag, ef mig misminnir ekki, og það verða mýmörg tækifæri til að ræða um hvalveiðar og væntanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið á næstu dögum, vikum og missirum. Afstaða þýska þingsins kemur í sjálfu sér þeim sem hafa kynnt sér þau mál ekki á óvart. Stefna stjórnvalda á Íslandi er líka skýr í þessu máli. Aðildarviðræður eru ekki hafnar en þær hefjast vonandi síðar á þessu ári. Það er bara einni staðreynd við þetta að bæta, frú forseti, af því að menn tala um undirstöðuatvinnugreinar: Útflutningstekjur af hvalveiðum voru á síðasta ári 5.000 kr.