138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég hélt satt að segja að í gær og í nótt hefði náðst ákveðið samkomulag um þinghaldið þó að það hefði aðeins dregist fram eftir nóttu. Miðað við það sem flestir gerðu ráð fyrir hefði mátt búast við því að það gæti haldið áfram í dag þar sem frá var horfið og ég beini því eindregið til forseta að halda sig við það.

Ég vil upplýsa að utanríkismálanefnd kemur til fundar í dag að loknum þessum þingfundi til að fjalla um tiltekin mál sem óskað var eftir. Það stendur til að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og utanríkismálanefnd haldi sérstakan sameiginlegan fund, vonandi í lok þessarar viku, um hvalveiðimálin sérstaklega. Þau hafa oft verið rædd á vettvangi þingnefnda. Það er því ljóst að það eru tilefni og tækifæri til að ræða þau þar.

Ég ætla ekki að blanda ESB inn í þessa umræðu. Afstaða mín til hvalveiða byggir á grundvallarsjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hefur ekkert með aðild Íslands að ESB að gera, þótt lesa megi út úr fjölmiðlum í dag að það sé mín afstaða. (Forseti hringir.) Ég vísa því hér með á bug.