138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna og vil koma að nokkrum athugasemdum sem ég mun að sjálfsögðu fylgja eftir í ræðu minni hér á eftir.

Það segir í þessu máli að til standi að fara í heildarendurskipulagningu á stofnanakerfinu. Hefði ekki verið ágætt fyrir hæstv. forsætisráðherra að kynna aðeins fyrir okkur hvað felst í þeirri heildarendurskipulagningu? Mér finnst þetta mál vera dæmi um frumvarp sem er eins og mörg önnur sem ríkisstjórnin kemur fram með, óskað er opinnar heimildar til að gera eitt og annað sem síðar kemur í ljós hvað á að verða. Fyrir utan það er hér margoft vísað til starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við á þinginu erum með rannsóknarskýrsluna til skoðunar. Við munum koma með okkar eigin skoðanir á henni vegna þess að við berum ábyrgð á eftirliti með framkvæmdarvaldinu. (Forseti hringir.) Við munum mynda okkur okkar eigin skoðanir á því hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað hjá framkvæmdarvaldinu og í stofnanakerfinu. (Forseti hringir.) En áður en þingið hefur lokið því starfi sínu kemur forsætisráðherrann að sjálfsögðu með tilbúið frumvarp á grundvelli vinnu starfshóps um rannsóknarskýrsluna, áður en þingið hefur lokið sinni skoðun. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað algjörlega ólíðandi.