138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:29]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Með vísan til þess síðasta sem hv. þingmaður nefndi þá er einungis verið að vísa til þess að rannsóknarnefndin taldi ástæðu til þess að benda á að það væri nauðsynlegur liður í endurskipulagningu að styrkja ráðuneytin, einfalda þau og fækka þeim. Það er auðvitað ástæða til þess þegar verið er að ræða svona frumvarp að þessi ábending komist á framfæri.

Í forsætisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum hefur verið unnið að því um nokkurt skeið að endurskipuleggja stofnanakerfið í heild, hvort og hvernig hægt sé að fækka stofnunum. Um það er til ítarlegur listi og öll ráðuneyti hafa í sínum ranni farið yfir hvar möguleikar eru á hagræðingu og sameiningu og unnið þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess í góðu samráði og samstarfi við þær stofnanir sem til greina kemur að sameina. Ég er hér með ítarlegan lista yfir þær stofnanir sem verið er að skoða hvort hægt sé (Forseti hringir.) að sameina og hagræða í og auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að sú nefnd sem fær málið til umsagnar fái þann lista sem verið er að vinna að og tekur auðvitað sífellt breytingum.