138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er allt saman unnið með öfugum klónum. Það er byrjað á röngum enda eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur bent á. Nú er það boðað, m.a. í greinargerð þessa frumvarps, að þegar frumvarpið hafi verið lagt fram, þegar það er komið til nefndar, eigi að hefja samráðið um frumvarpið.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, flutningsmann málsins: Hvað er þá undir í þessu samráði? Hvað ætla menn að hafa samráð um? Er ekki búið að leggja hér meginlínurnar, er það ekki þannig að hæstv. ráðherra ætlar að hafa lögin í meginatriðum eins og frumvarpið gengur út frá? Út á hvað á þetta samráð að ganga? Hvað telur hæstv. ráðherra að geti komið til skoðunar þegar farið verður yfir þessi mál? Er hæstv. ráðherra að boða eitthvað með þessum orðum, eru þetta bara falleg orð á blaði, svona friðþægingarorð eða er hér eitthvað á bak við sem við eigum að trúa að geti leitt til þess að eftir samráð vilji hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin skoða einhverja þætti sérstaklega (Forseti hringir.) sem komi til greina að endurskoða, í ljósi þess að það er bullandi ágreiningur um þetta mál í ríkisstjórninni, hjá stjórnarliðum og hjá öllum þeim sem við eiga að búa?