138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ítarlega farið yfir það í greinargerð frumvarpsins hvernig við teljum rétt að haga samningsferlinu, bæði meðan málið er til meðferðar og umræðu í þinginu og eftir að það hefur verið samþykkt, verði það gert að lögum, hvernig samvinna verður höfð við þá aðila sem málið helst varðar, hagsmunaaðila. Talað er um tengingu við þingflokka o.s.frv. Fara þarf í ákveðna greiningarvinnu varðandi stofnanaskipulagið í heild sinni, m.a. hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og varðandi umhverfisráðuneytið. Skoða þarf samspilið á milli þessara ráðuneyta, hvernig best er að haga stofnanakerfinu á milli ráðuneytanna, verði frumvarpið að lögum. Ég nefndi Hafrannsóknastofnun sem dæmi um stofnun þar sem ekkert hefur verið ákveðið með en menn vilja hafa samráð um. Þess vegna hef ég t.d. lagt áherslu á að þetta mál komist til nefndar og umsagnar til að hægt sé að hefja sameiningarferlið (Forseti hringir.) sem er mjög mikilvægt fyrir marga hagsmunaaðila sem hafa gert athugasemdir við sameininguna, m.a. Bændasamtökin og aðilar á sviði sjávarútvegs.