138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra staðfesti það sem ég sagði áðan, að samráðið í þessu máli á að vera eftir á. Það er grunntónninn í þessu frumvarpi. Þegar maður les í gegnum greinargerðina blasir þetta við. Það liggur einfaldlega fyrir að það er bullandi ágreiningur um málið hvarvetna sem litið er, í stjórnarflokkunum og hjá hagsmunaaðilum, og auðvitað gerir ríkisstjórnin sér grein fyrir að hún hefur ekki fullt vald á málinu. Ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir að hún verður á einhverjum tímapunkti að slá af kröfum sínum.

Af því sem hæstv. ráðherra sagði hér fannst mér athyglisverðast að ráðherra var að opna á það að upphaflegu hugmyndirnar um að færa Hafrannsóknastofnunina frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sem ég hygg að nýja ráðuneytið eigi að heita, yrðu ekki að veruleika. Því vil ég spyrja: Mun þetta þá ekki líka eiga við um aðra auðlindanýtingu sem lýtur t.d. að málum sem snúa að iðnaðinum? (Forseti hringir.) Er ekki sjálfgefið, ef farið er í að endurskoða þessi áform, að farið sé líka í endurskoðun á öðrum áformum sem snúa sérstaklega að iðnaðinum?