138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt hluti af því samráðsferli sem við viljum að fari af stað vegna þess að það hefur ekki verið ákveðið, eins og mér fannst hv. þingmaður ýja að, það hefur á engum stigum verið ákveðið að færa Hafrannsóknastofnun alveg yfir til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Margt mælir með því og það er líka ýmislegt sem mælir á móti því. Það er spurning hvort skipta eigi stofnuninni upp með einhverjum hætti, það eru líka gallar á því. Þess vegna viljum við fara í þá greiningarvinnu sem hér er nefnd í samráði við hagsmunaaðila, fara yfir þetta lið fyrir lið, hverjir eru kostirnir varðandi stofnanakerfið, hvorum megin á það að liggja og hvernig viljum við haga stjórnskipulagi stofnana innan þessara ráðuneyta við sameiningu.

Það er auðvitað rangt sem hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari sínu, að forsætisráðherra ætli að hafa málið í meginatriðum eins og það er í frumvarpinu. Ég vil fara í samráðsferli við þessa aðila, sérstaklega þá sem hæst hafa deilt um þetta, eins og Bændasamtökin og aðilar í sjávarútvegi, (Forseti hringir.) og það er einmitt þess vegna sem við viljum hafa þetta uppi. Ég minni á að flestir stjórnmálaflokkar hafa ályktað í gegnum tíðina um að sameina eigi atvinnuvegamálin í eitt ráðuneyti.