138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að fara í gegnum frumvarpið og kynna okkur það eins og það lítur nú út af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég er með tvær spurningar sem mig langar að varpa til hæstv. ráðherra. Önnur snýr að því að hér er fjallað talsvert um sameiningu ríkisstofnana og því má velta fyrir sér hverju það hafi skilað á liðnum árum. Ég spurði í fyrirspurn til fjármálaráðherra fyrr í vetur hvaða markmið menn hefðu sett sér við sameiningu ýmissa ríkisstofnana á síðustu fimm árum, hvernig þeim markmiðum hefði verið náð og ekki síst hinum fjárhagslegu markmiðum og hvernig þau væru mæld. Staðreyndin er sú að í svarinu sem kom frá öllum ráðuneytum er enginn ávinningur eða lítill og hvergi mældur vegna þess að hann er yfirleitt metinn svo að hann muni síðar meir skila nokkru en það sé allsendis óljóst. Þess vegna langar mig að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig menn hafi hugsað sér að mæla þann ávinning (Forseti hringir.) sem ætlaður er að verði og kemur fram í greinargerðinni að fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir „að öllu virtu“, eins og þeir segja, að muni skila um 360 millj. kr. til lækkunar á ári (Forseti hringir.) þegar áhrifin eru að fullu komin fram. Hvernig ætla menn að (Forseti hringir.) mæla þetta og hvernig ætla menn að ná þessu (Forseti hringir.) því að það hefur ekki tekist til þessa?