138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að þeim sparnaði sem hv. þingmaður dregur í efa. Ég vil minna á að ég nefndi í framsöguræðu minni áðan að í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um frumvarp til lögreglulaga sem nú er til umfjöllunar í þinginu kemur fram að stór hluti af hagræðingu og sparnaði sem náðst hefur á þessu og síðasta ári hjá embættinu liggur í því að embættin voru sameinuð í upphafi árs 2007. Ég held að þetta sé bara eitt dæmi af mörgum sem munu sýna okkur fram á mikla hagræðingu og sparnað í þessu og það sem er, eins og ég sagði, mikilvægast af öllu er að geta með því hlíft velferðarkerfinu í gegnum næstu erfiðu missiri.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um matvælaráðuneyti hefur það verið skoðað eins og margt annað en niðurstaðan eins og hún liggur fyrir er að það sé skynsamlegast að sameina ráðuneytin með þessum hætti. Og þar sem mér finnst margir benda á að með þessu sé verið að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þá er þvert á móti verið að styrkja það ráðuneyti. Þar vinna 50 manns og þar er verið að bæta iðnaðarráðuneytinu við þar sem 15 manns vinna. (Forseti hringir.) Hvernig sem á málið er litið er verið að styrkja þessar atvinnugreinar, sjávarútveg og landbúnað, með sameiningu þessara ráðuneyta í atvinnumálum.