138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður les þetta frumvarp sér maður að þetta er mikil hrákasmíð og þarna er fyrst og fremst um að ræða slagorð í staðinn fyrir vandaða vinnu. Það er ótrúlegt að fara í gegnum þetta og sjá að menn hafa ekki einu sinni kostnaðargreint þessa hluti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er það ekki gert? Er það rétt sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að fyrir yfirmannastöðurnar sem á að spara verði mönnum boðnar sérfræðistöður í staðinn og það sé gert ráð fyrir 200 millj. kr. biðlaunakostnaði í tengslum við það? Og af hverju er ekki eftir allan þennan tíma búið að útfæra húsnæðiskostnaðinn? Eins og kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu er það bara hreinlega eftir.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst þetta vera enn eitt popúlistamálið hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin hefur verið að stöðva sameiningu stofnana og samvinnu þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafi látið skoða það sérstaklega að það mundi spara gríðarlega fjármuni, í einu tilviki (Forseti hringir.) rúmlega milljarð á ári.