138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því að frumvarpið sé hrákasmíð og tel það hreina móðgun við þá aðila sem hafa lagt á sig mikla vinnu við undirbúning þessara mála í samráði við önnur ráðuneyti og ýmsa aðila. Eg held að þingmaðurinn verði að skoða hug sinn áður en hann sendir þessu starfsfólki skeyti um að frumvarpið sé bara hrákasmíð.

Varðandi kostnaðinn þá er ítarlega farið yfir hann frá fjárlagaskrifstofunni í greinargerðinni. Það eru augljósir sparnaðarmöguleikar í því að fækka yfirmönnum t.d. í ráðuneytum. Varðandi húsnæðiskostnaðinn þá liggur fyrir að til er nú þegar húsnæði sem tilheyrir sjávarútvegsráðuneytinu svo dæmi sé nefnt. Ég nefni húsnæði í heilbrigðisráðuneytinu sem væri hægt að nýta fyrir velferðarráðuneytið og ég nefni sjávarútvegshúsnæðið sem væri hægt að nýta fyrir atvinnuvegaráðuneyti. (Forseti hringir.) Varðandi innanríkisráðuneytið má nýta þann húsnæðiskost sem fyrir er þannig að ég hef ekki trú á öðru en það verði hagræðing í húsnæðismálum, frekar en aukinn kostnaður.