138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sparnaðurinn sem við munum sjá, verði þetta frumvarp að lögum, verði ekki síst í hinu áformaða velferðarráðuneyti með sameiningu félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Hv. þingmaður veit sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra að þar eru ýmsir sparnaðarmöguleikar fyrir hendi og ég held að þetta muni auðvelda okkur flutning á málefnum fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna sem unnið er að. Það hafa verið mikil skörunarvandamál í öldrunarþjónustunni og það veit hv. þingmaður mætavel, við tókumst á um það, ég sem félagsmálaráðherra og hann sem heilbrigðisráðherra. Þar eru ýmis skörunarvandamál sem munu leysast. Það er hægt að skipuleggja og hagræða miklu betur innan velferðarkerfisins með heildarsýn í huga, t.d. í öldrunarmálum og forvarnamálum, með því að þetta sé undir einu ráðuneyti með þá heildaryfirsýn sem þarf. (Forseti hringir.)

Varðandi kostnaðaráætlunina þá held ég að það sé nú mjög ítarlega farið í þá kostnaðaráætlun sem liggur fyrir í umsögn (Forseti hringir.) fjárlagaskrifstofu. Það er sjaldan sem gerð er svona ítarleg kostnaðaráætlun eins og hér fylgir með. En auðvitað fer nefndin yfir þetta mál eins og annað þegar hún fær það til meðferðar.