138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það er í sjálfu sér, þegar maður skoðar efnisatriði frumvarpsins, afskaplega einfalt. Verði frumvarpið að lögum breytir það gildandi lögum ekki á annan veg en þann að nokkur ráðuneytaheiti breytast í lögum um Stjórnarráðið. Gert er ráð fyrir því í 2. gr. að lögin öðlist gildi 1. janúar 2011 með undantekningu sem fram kemur í 2. gr.

Þegar greinargerðin sjálf er skoðuð sjáum við auðvitað að að baki málinu býr stórt plan, plan um að efla stofnanakerfið og fækka ráðuneytum og, eins og segir í frumvarpinu sjálfu, að efla stjórnsýsluna.

Mig langar til að byrja á því að segja að svona miklar stjórnkerfisbreytingar, eins og hér eru í farvatninu, eru mál sem best færi á að vinna þvert á flokka og í góðu samráði við alla sem að málinu koma. Þannig færi t.d. best á því að ráðherra kynnti áform sín um mál af þessum toga fyrir þinginu, efndi til umræðu um þær hugmyndir og tæki síðan athugasemdir sem fram kæmu í slíkri umræðu með sér aftur í ráðuneytið til að vinna úr þeim frekar. Einnig að hagsmunaaðilar, hvar sem þeir eru í samfélaginu og eftir því undir hvaða ráðuneyti sem þeir heyra eða til hvaða ráðuneytis þeir líta fyrst og fremst, fái tækifæri til að lýsa sjónarmiðum sínum.

Þannig hefur ekki verið unnið að þessu máli. Ef við skoðum frumvarpið sjálft, greinargerðina, sjáum við að fyrst og fremst byggir það á samkomulagi milli flokkanna sem rata inn í stjórnarsáttmálann án mikils aðdraganda. Í öðru lagi er oft vísað í frumvarpinu til viðbragðshóps eða starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Varðandi þann starfshóp vil ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari við hæstv. forsætisráðherra: Starfshópur forsætisráðuneytisins mun ekki vera ráðandi um viðbrögð þingsins við rannsóknarskýrslunni. Það er þingnefndin sem er með rannsóknarskýrsluna sjálfa til umfjöllunar sem verður ráðandi á endanum um helstu viðbrögð þingsins í tilefni af skýrslunni. Sú nefnd sem hér starfar hefur ekki lokið störfum, hefur ekki skilað af sér.

Eins og sjá má af umræðunni sem farið hefur fram hér í andsvörum við hæstv. forsætisráðherra er ljóst að það er auðvelt að efna til allnokkurra deilna um þessar hugmyndir. Á hinn bóginn væri tiltölulega einfalt mál að efna til samstöðu um það sem skynsamlegt er að gera. Á þeim tímum sem við nú lifum er augljóst að það er skynsamlegt að reyna að ná fram hagræðingu, td. í stofnanakerfinu. Það er tiltekið í frumvarpinu hversu margar stofnanir eru í stjórnsýslunni og teflt fram því yfirmarkmiði að reyna að fækka stofnunum og gera þær að öflugri einingum. Það er skynsamlegt markmið. Það ætti ekki að þurfa að halda þannig á málinu að um það verði mikill ágreiningur. En þegar ríkisstjórnin leggur fram frumvarpið og vill fá opna heimild til að æða fram í slíku máli er mjög stutt í ágreininginn. Það er nefnilega enginn bragur á því að þingið veiti opna heimild til að ráðast í miklar stjórnkerfisbreytingar án þess að fyrst hafi farið fram eðlileg og nauðsynleg umræða. Sérstaklega á það við þegar samráð hefur verið af jafnskornum skammti og augljóst er í málinu.

Eitt af því sem getur gerst við sameiningu ráðuneyta í mjög stórar einingar er að viðkomandi ráðherra sem fer fyrir ráðuneytinu tapar yfirsýn. Ef hinir kjörnu fulltrúar, fulltrúar fólksins í landinu sem hafa fengið það hlutverk að sitja á þingi og rata kannski síðan í ráðuneytin, tapa yfirsýn yfir málaflokkana, hvað gerist þá? Jú, þá eykst vald embættismannanna í kerfinu. Það getur varla verið sérstakt markmið með frumvarpinu að auka vald embættismannanna í kerfinu á kostnað fulltrúa fólksins, eða er það nokkuð?

Annað sem maður sér augljóslega af þeim hugmyndum sem reifaðar eru í frumvarpinu er að það er hægt að fara fleiri en eina leið í því að sameina ráðuneyti. Hér er farin sú leið að stofna eitt sérstakt atvinnuvegaráðuneyti en gríðarlega mikilvægur þáttur er skilinn undan sem er auðlindamálin. Það er ekki fyllilega ljóst með hvaða hætti hugmyndin er að gera það samkvæmt frumvarpinu en í prinsippinu stendur til að koma þeim fyrir með umhverfismálunum í nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að auðlindamálin hljóti að eiga að vistast með þeim atvinnuvegaráðuneytum sem byggja á viðkomandi auðlindum, þ.e. að auðlindamálin geta ekki verið skilin að fullu frá viðkomandi ráðuneytum. Tökum sem dæmi sjávarútvegsráðuneytið. Auðlindastýringin þar er kjarnaþáttur í sjávarútvegsráðuneytinu, í því hvernig við stýrum auðlindinni og nýtum hana. Það er kjarninn, það er hjartað í sjávarútvegsráðuneytinu. Ef taka á þann þátt út úr sjávarútvegsráðuneytinu og færa annað tel ég að málefnum sjávarútvegsins sé stefnt í mikið óefni.

Mig langar líka að nefna velferðarráðuneytið. Ef öll þau mál sem heyra undir félagsmálaráðuneytið í dag, þ.e. allur tryggingaþátturinn, eiga að renna saman við verkefni heilbrigðisráðuneytisins og þeim steypt saman í eitt velferðarráðuneyti er nauðsynlegt að huga að því hversu hátt hlutfall útgjalda ríkisins er þá komið undir eitt þak. Ég tel augljóst að þarna yrði um allt of umsvifamikið ráðuneyti að ræða undir einu þaki. Að gera einum ráðherra það að fara með svo stóran hluta ríkisútgjaldanna er óraunhæft að mínu viti. Ég geri hins vegar ekki lítið úr því að stærri einingar geta verið öflugri og skilvirkari og auðvitað er gríðarlega mikill munur á stærð einstakra ráðuneyta eins og stjórnkerfið er í dag. Tökum sem dæmi gamla landbúnaðarráðuneytið sem nú hefur runnið saman við sjávarútvegsráðuneytið. Gamla landbúnaðarráðuneytið var auðvitað afskaplega lítil eining í samanburði við stærstu ráðuneytin, eins og t.d. heilbrigðisráðuneytið. Það var skynsamlegt á sínum tíma að láta þessi tvö ráðuneyti renna saman. Það má vel vera að við getum náð aukinni hagræðingu og betra skipulagi með því að koma á fót sérstöku atvinnuvegaráðuneyti, það vil ég alls ekki útiloka, en mér finnst það vera grundvallaratriði að auðlindamálin séu þá ekki skilin þar frá.

Mér finnst líka koma til greina að ýmsar framkvæmdaáætlanir sem ekki fylgir neinn sérstakur rekstur séu fluttar yfir til fjármálaráðuneytisins. Byggðaáætlun, samgönguáætlun og fleira slíkt gæti vel átt heima í fjármálaráðuneytinu. Á hinn bóginn væru samgöngumálin að öðru leyti í innanríkisráðuneyti þar sem félagsmál, samgöngumál, umhverfismál jafnvel og dómsmál væru á einum og sama staðnum. Með þessu er ég að segja að ég sé enga augljósa þörf fyrir það að halda sérstaklega í umhverfisráðuneytið.

Allt eru þetta mál sem geta haft mikil áhrif á skilvirkni stjórnsýslunnar til framtíðar. Þetta eru mál sem þarfnast umræðu á þinginu. Nú horfir svo við að hæstv. forsætisráðherra teflir fram þessu máli u.þ.b. tveimur mánuðum eftir að síðasti framlagningardagur er liðinn, þ.e. 1. apríl. Þetta mál kom ekki fram í þinginu fyrr en í júní og svo fylgir málinu að æskilegt sé að það verði klárað strax í haust. Ég heyri ekki annað á forsætisráðherra en að það sé ætlast til þess að þingið afgreiði málið strax í september. Þetta eru auðvitað fullkomlega óraunhæfar hugmyndir. Mér finnst beinlínis óeðlilegt að þinginu sé nánast skipað fyrir, eins og gert er í frumvarpinu, að klára málið á einhverjum tilteknum tíma. Eitt er að setja gildistökuákvæði í frumvörp sem markmið um það hvenær lögin eigi að taka gildi en þá verður auðvitað að fylgja því eitthvert raunsæi. Auk þess sem gildistökuákvæði hefur verið sett fram er fjallað sérstaklega um það í greinargerð með málinu hvenær þingið eigi að ljúka afgreiðslu þess. Þetta verður auðvitað ekki þannig.

Hér þarf að vanda til verka. Langeðlilegast hefði verið að við hefðum fengið umræðu í þinginu um þessi mál í heildarsamhengi hlutanna og í framhaldi af því hefði forsætisráðuneytið byrjað að vinna með hugmyndir í góðu samráði. Hér skortir allt samráð, það hefur ekkert samráð átt sér stað. Ég veit t.d. til þess að ýmsir aðilar innan Samtaka atvinnulífsins óskuðu eftir því á sínum tíma að efnt yrði til sérstaks samráðs þannig að málin yrðu unnin í góðri sátt við þá sem eiga hlut að málum, t.d. aðila í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þarna var sérstaklega tekinn fram samstarfsvilji til að vinna að þessum málum.

Þetta er í heild sinni dæmi um illa undirbúið, illa ígrundað mál, mál sem hefði átt að vinna lengra áður en því var teflt fram á þingi, mál sem hægt er að stefna í ógöngur en er algjörlega ástæðulaust að gera. Ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ítrekað komið fram með mál á þinginu sem tiltölulega auðvelt ætti að vera að skapa sáttagrundvöll um en gerir það þannig að menn leggja af stað á röngum fæti. Oft er það þannig að setji menn rangan fót fram þegar þeir leggja af stað í grindahlaup, þá fella þeir fyrstu grindina og síðan allar grindurnar sem þar á eftir fylgja og komast ekki eins hratt yfir og að var stefnt.

Ég ætla að fara að stytta mál mitt en mér finnst mikilvægt að það komi fram að við í Sjálfstæðisflokknum erum tilbúin til þess að eiga samstarf um allar góðar hugmyndir um að auka skilvirkni stjórnsýslunnar, um að spara í rekstri ríkisins. Við viljum vinna góðum hugmyndum um eflingu einstakra ráðuneyta framgang. Ég tel að það sé margt hægt að gera til að auka skilvirknina, spara skattfé og auka getu ráðuneytanna til að sinna sínum málum. En við munum ekki samþykkja það og ekki taka þátt í því á þinginu að afgreiða illa unnin mál, illa ígrunduð, frá Alþingi og veita ríkisstjórninni opna heimild til að haga málum að eigin vild í framhaldinu. Þannig verður það ekki. Breytingar á Stjórnarráðinu, endurskipulagning ráðuneytanna og heildarendurskoðun stofnanakerfisins eru ekki mál sem hægt er að kippa í gegnum þingið án umræðu og nauðsynlegs aðdraganda.