138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um síðastnefnda atriðið, þ.e. um rannsóknarnefndina og nefndina á þinginu sem vinnur að rannsóknarskýrslunni, þá eru mínar athugasemdir einfaldlega þessar: Mér finnst hæstv. forsætisráðherra vinna á eigin forsendum úr skýrslunni og tefla fram hugmyndum áður en þingið hefur lokið sínum störfum. Nýjasta dæmið um það er ummæli hæstv. forsætisráðherra frá því í gær þar sem hún segir að ætli nefndin á þinginu ekki að efna til rannsóknar á einkavæðingarferli bankanna muni forsætisráðherra gera það.

Hvað er þetta annað en skilaboð til þingsins um það hvernig það á að haga störfum sínum? Ég ætlast til þess að þingið sé sjálfstætt í skoðun sinni á rannsóknarskýrslunni og frábið mér svona sendingar frá hæstv. forsætisráðherra.

Varðandi samráðið þá er ég hérna með bréf sem undir skrifa Bændasamtök Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband stangaveiðifélaga, Samtök atvinnulífsins, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband smábátaeigenda, Landssamband veiðifélaga, Samtök fiskvinnslustöðva og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna, þar sem lýst er furðu á því að þetta mál sé komið fram og til standi að tefla því fram.

Eins og segir hér í bréfinu:

„Með vísan til þess sem að framan greinir kemur það okkur algjörlega á óvart að ríkisstjórnin hyggist ljúka málinu með framlagningu lagafrumvarps á næstu dögum…“

Viðkomandi aðilar hafa boðist til að eiga samráð við ríkisstjórnina um það hvernig vinna eigi að þessum málum. Þetta er nú allt samráðið.

Varðandi gagnsæið segir hér í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Fyrir liggja tillögur um umfangsmiklar breytingar sem gera ráð fyrir að ríkisstofnunum hér á landi fækki verulega.“

Hefði ekki verið ágætt að fá þessar hugmyndir hér fram? Hvert er gegnsæið í málinu? Hvers vegna hafa þær ekki verið ræddar hér á Alþingi, þessar umfangsmiklu breytingar (Forseti hringir.) á ríkisstofnunum og fækkun þeirra?