138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Áform um það að hagræða og endurskipuleggja Stjórnarráðið eru ekki ný af nálinni. Á umliðnum árum hafa þessi mál iðulega verið til umræðu og oftast hefur umræðan hnigið í þá átt að skynsamlegt væri að fækka ráðuneytum og styrkja þau sem eftir stæðu. Ég hygg að flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar sem nú starfa á Alþingi, kannski að Hreyfingunni undanskilinni, hafi á umliðnum árum eitthvað ályktað í þá veru, með mismunandi hætti þó, og væri fróðlegt að fara yfir það.

Staðan nú er hins vegar sú að við erum í meiri þörf fyrir það en um áratugaskeið að fara rækilega í gegnum allt skipulag okkar og stjórnsýslu og skoða með hvaða aðgerðum, ekki síst skipulagsbreytingum, við getum náð fram betri nýtingu fjármuna og öflugri og skilvirkari starfsemi með sem minnstum tilkostnaði. Það eru margvísleg rök af því tagi sem mæla með því að nú sé farið yfir þetta verk og þá er ég ekki fyrst og fremst að tala um Stjórnarráðið heldur allan hinn opinbera rekstur og um 200 stofnanir ríkisins. Rökin eru fjárhagsleg og þörf er fyrir það að sú stjórnsýsla sem við erum með sé eins burðug, fagleg, vel sérhæfð og kraftmikil og kostur er á og þar eru kostir í stærri og sterkari einingum. Það eru m.a. þau rök sem rannsóknarskýrslan bendir réttilega á og fer rækilega yfir.

Síðan á þróun sér alltaf stað. Ný tækni, nýjar aðstæður og ný stefnumótun kalla á það að menn þori að endurskipuleggja hlutina. Ég nefni umhverfismál, að sjálfsögðu þarf stjórnskipulag okkar að taka mið af þróun umhverfisréttarins sem hefur verið hröð síðustu 1-–20 árin og endurspeglast í styrkri stöðu umhverfismála. Sérhæfing hefur aukist, sérmenntun og fagmenntun af ýmsum toga, og það er kostur að hafa stærri einingar sem búa yfir meiri sérþekkingu og mannskap sem hægt er að færa til eftir því hvernig álagið fellur til.

Það er mikilvægt að vanda til verka við svona vinnu, um það erum við vonandi öll sammála, en það þarf auðvitað að byrja einhvers staðar. Það þarf að eiga samstarf og samvinnu við þá sem við eiga að búa, ekki fyrst og fremst og eingöngu hagsmunasamtökin. Það sem skiptir mestu máli er að fá starfsfólk, forstöðumenn, stjórnendur og starfsmenn með í verkefni af þessu tagi. Þá skila þau árangri og þá náum við markmiðum okkar um hagræðingu og bætta stjórnsýslu. Að sjálfsögðu þarf líka að reyna að ná eins góðu samkomulagi um þessa hluti og kostur er við heildarsamtök hagsmunaaðila, atvinnugreinarnar sem í hlut eiga eftir atvikum o.s.frv.

Áformin sem kynnt eru í frumvarpinu voru skrifuð með tilteknum hætti inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að undangenginni vinnu í aðdraganda stjórnarmyndunarviðræðna þar um, þannig að þau eiga ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Þau hafa þó tekið breytingum, fyrstu skrefin voru tekin sl. haust og nú er stefnt að því að gera viðameiri breytingu nálægt miðbiki kjörtímabilsins þannig að ráðuneytunum fækki úr tólf í tíu, jafnvel um næstu áramót, og nokkru síðar verði til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Að sjálfsögðu eru rök bæði með og á móti í þessum tilvikum eins og alltaf og við skulum ræða þau. Ég held að endalaust tuð um það hvort leggja eigi af stað í ferðina svona eða hinsegin skili okkur ekki miklu því allar ferðir hefjast á einhverju skrefi. Hér er málið opnað með frumvarpi sem er fyrst og fremst lagt fram til kynningar og til að koma því í vinnu- og samráðsfarveg í sumar og fram á haustið.

Ég er persónulega sannfærður um það, eftir að hafa legið dálítið yfir tölum um fjármál og útgjöld hins opinbera að stærsta einstaka hagræðingaraðgerðin sem hægt sé að ráðast í í ríkisrekstri á Íslandi sé að stofna velferðarráðuneyti. Þar eru mestu útgjöldin og skörun málaflokka er mjög mikil milli félagsþjónustuþáttarins og heilbrigðisþjónustuþáttarins, milli almannatrygginga og sjúkratrygginga, þar eru samþættingarmöguleikarnir mestir. Með nákvæmlega sama hætti og hefur skilað sér hjá þeim sveitarfélögum sem hafa fengið og yfirtekið frá ríkinu málefni fatlaðra og jafnvel heilsugæsluna á grundvelli tilraunaverkefna eða þjónustusamninga hefur samþættingin skilað góðum árangri. Akureyrarmódelið er dæmi um slíkt.

Með færslu málefna fatlaðra, sem vonandi verður af um áramótin, yfir til sveitarfélaga og síðan í kjölfarið færslu málefna aldraðra mun umfang velferðarráðuneytis minnka nokkuð og ég endurtek það að skoðun á þessum hlutum hefur sannfært mig um það að þó að ráðuneytið verði stórt og viðamikið verða líka fólgnir í því gríðarlega miklir möguleikar, ekki fyrst og fremst í sameiningu tveggja ráðuneyta heldur þeim viðamikla rekstri sem að baki liggur.

Sama má segja um innanríkisráðuneytið. Mörg hagræn og gild rök eru fyrir því að góður kostur sé að búa til eitt öflugt ráðuneyti innviða og öryggismála í landinu. Veruleg samlegðaráhrif eru í mörgum af þeim stofnunum sem að baki liggja og hafa þau verið kortlögð.

Um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti er það að segja að sennilega er mestur ágreiningur uppi um þau, sérstaklega hið fyrra. Hvað umhverfis- og auðlindaráðuneytið varðar hefur það lengi verið baráttumál okkar Vinstri grænna að efla stöðu umhverfismála í stjórnsýslunni og gefa þeim sterkari stöðu, að umhverfisráðuneytið fengi stöðu jafnvel hliðstæðari fjármálaráðuneyti eða öðru slíku. Umhverfismálin eru málaflokkur sem verðskuldar að fá sterkan sess í stjórnsýslu okkar. Það þarf að leita sátta milli þeirra systra verndunar og nýtingar og það á ekki að stilla þeim upp sem andstæðum. Það er úrelt og gamaldags hugsun. Sjálfbær nýting og sjálfbær þróun eru hugtök sem eiga að vera hönd í hönd.

Varðandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eru vissulega mörg sterk fagleg rök fyrir því að það geti orðið málefnum hins almenna atvinnulífs til góðs að sameina þau í einu sterku ráðuneyti, að landamærin milli atvinnugreinanna frá fornu fari hverfi. Margt leggst vel saman með landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, nýsköpun og atvinnuþróun, sjóðunum sem eru vistaðir í báðum ráðuneytunum í dag o.s.frv.

Iðnaðarráðuneytið er minnsta ráðuneytið, leifar af ráðuneyti sem skipt var upp þegar vantaði stóla fyrir nokkrum árum síðan og kostaði í rekstri 140 millj. kr. á ári. Það var ekki hagræðingaraðgerð. Þar sáum við öfug samlegðaráhrif. Hins vegar er talið að rekstrarkostnaður sameinaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sé 40 millj. kr. lægri á ári en framreiknað hefði kostað að reka ráðuneytin hvort í sínu lagi. Þar sjáum við hið gagnstæða. Það er því engin leið að mæla á móti því að hagræðingar- og sparnaðarmöguleikar eru í þessu.

Hins vegar eru skiptar skoðanir og andstaða við tilurð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og ég skil mörg af þeim rökum og ýmsar áhyggjur sem þar liggja að baki. Þess vegna er rétt og skylt að fara vandlega yfir það með þeim sem í hlut eiga. Það verður gert og er boðað í greinargerð frumvarpsins. Þess vegna er því máli gefinn lengri tími og sérstaklega tekið fram að það eigi að nota sumarið og haustið í samráð við ekki síst landbúnaðinn og sjávarútveginn og meta síðan framvindu málsins í ljósi þess hvernig það samstarf gengur. Ég tel að þar skipti verkaskiptingin mestu máli. Ef vel tekst til að ná sáttum um landamærin milli umhverfis- og grunnrannsókna og auðlindaþáttarins annars vegar og nýtingar- og atvinnuþáttarins hins vegar má vinna mikið með því.

Samtök atvinnulífsins sendu frá sér bók í morgun og ég fór lítt sofinn til að spjalla um hana inni á Grand hóteli. Hvað er þar sagt um þessi mál? Komið er inn á þau og sagt að ríkisstjórnin hyggist fækka ráðuneytum niður í níu og að núverandi hugmyndir ríkisstjórnarinnar gangi of skammt í þá átt. Samtök atvinnulífsins vilja átta ráðuneyti, að vísu að einhverju leyti öðruvísi útfærð. Hvað segja sjálfstæðismenn um það? Holland er að skoða það að fækka sínum ráðuneytum úr 14 niður í átta. Um öll lönd eru menn að leita leiða til hagræðingar í þessum efnum, ekki síst vegna erfiðleika í ríkisbúskapnum. En það þarf að vanda til verka og það stendur ekkert annað til. Ég mun ekki standa að því að þessar breytingar fari á endastöð, vitandi það og horfandi á það hversu mikilvægt er að þeir sem eiga að vera í framkvæmdinni skapi samstöðu og þátttöku í verkefninu, sérstaklega stjórnendur og starfsmenn, öðruvísi en ég hafi sæmilega sannfæringu fyrir því að það muni takast.