138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki að mælast til þess að við tökum tvö skref aftur á bak áður en við förum að skoða þessi mál. Ég er bara að kalla eftir því að menn komi með mótaðar hugmyndir til þingsins ef þeir óska eftir því að um þessi mál verði samþykkt lög. Af umræðunni og þingmálinu sjálfu er augljóst að hugmyndirnar eru mjög á floti. Á meðan ríkisstjórnin veit ekki nákvæmlega hvað hún ætlar að gera getur hún ekki farið fram á það við þingið að það afgreiði málið.

Ríkisstjórnin getur hins vegar óskað eftir því við þingið að það taki málið til skoðunar en þá er forræði málsins komið hingað. Ekki segja þá við þingið á sama tíma, hæstv. ráðherrar, að þið ætlið að halda áfram samvinnu við einhverja aðila úti í þjóðfélaginu um það hvernig málið verði unnið áfram. Forræði málsins er á öðrum hvorum staðnum.

Varðandi þessar sameiningar þá er það rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir að eflaust má ná fram hagræðingu, t.d. með skipan nýs velferðarráðuneytis. En ég spyr mig hvort allur félagslegi þátturinn þurfi að fara þar inn. Ég hef miklar áhyggjur af því að ráðuneytið verði of stórt, það verði mikið skrímsli í ríkisrekstrinum og hvort ekki mundi duga (Forseti hringir.) að færa þar inn alla þjónustu og umönnun en láta (Forseti hringir.) félagslega þáttinn annað, t.d. í innanríkisráðuneytið.