138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er að verða æ skrautlegra. Upphaflega var okkur greint frá því að það væri að fæðast stjórnarfrumvarp um uppstokkun og sameiningu ráðuneyta. Svo skýrðist það að það var í raun og veru ekki eiginlegt stjórnarfrumvarp því allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar stóðu ekki að því. Það var heldur ekki stjórnarfrumvarp í þeim skilningi að þingmenn stjórnarliðsins stæðu að málinu, það hefur verið upplýst að umtalsverður hópur í öðrum stjórnarflokknum er þessu máli andvígur.

Nú kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir okkur að þetta frumvarp sé lagt fram til kynningar. Hæstv. forsætisráðherra leggur hins vegar mikla áherslu á að þetta mál verði afgreitt hér á haustþingi. Mér finnst vera fullkomin óvissa um hvað við erum að ræða. Erum við að ræða um eitthvert kynningarefni frá ríkisstjórninni eða erum við að ræða um eiginlegt frumvarp? Það væri gott að fá svar við þeirri spurningu.

Út af fyrir sig er gott og blessað að ætla að fara af stað í samráð núna eftir á en hefði ekki verið skynsamlegra að leita eftir því samráði fyrr þannig (Forseti hringir.) að menn vissu nokkurn veginn hvað væri mögulegt og hvað væri pólitískt fært í þeim efnum?