138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ekkert vera í þessu hjá hv. þingmönnum, þetta er óskaplegt tuð. Málið er einfalt. Þetta er stjórnarfrumvarp en fyrir liggur að fyrirvarar eru á stuðningi við eða eftir atvikum andstaða við tiltekna efnisþætti þess frá einum ráðherra í ríkisstjórninni og a.m.k. tveimur þingmönnum í þingflokki Vinstri grænna. Punktur. Þetta er staða málsins, það er ekkert verið að fara í neinar felur með það.

Það er heldur ekki farið í felur með það í greinargerðinni að við vitum vel af þeirri andstöðu sem hefur m.a. birst í ályktunum fjölda samtaka gagnvart tilteknum þáttum þessara áforma. Við horfumst í augu við það, við viðurkennum það og ætlum að ræða við þá aðila og sjá hvernig það gengur. Þegar ég segi að málið sé lagt fram til kynningar á ég við á þessu vorþingi. Það stóð aldrei annað til en að málið kæmi bara hér fram og engar hugmyndir voru um afgreiðslu þess á þessu vori.

Það gerði hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn vorið 2007, eða hvað? Þegar hann sameinaði ráðuneyti á örfáum vikum, ef ég man rétt. Þá var reyndar lagður grunnur að því að búa til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti (Forseti hringir.) með sameiningu tveggja ráðuneyta. Voru þá ekki einhverjir að tala um að það gæti verið fyrsta skrefið (Forseti hringir.) eða fyrra af tveimur í því að búa til atvinnuvegaráðuneyti?