138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef upplifað þessa umræðu er tilfinning mín sú að mestur ágreiningur sé um breytingarnar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og þá að fella þau saman við iðnaðarráðuneytið, eða hluta af því sem fellur undir iðnaðarmál, í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég hefði því áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hugsanlega kæmi til greina í staðinn fyrir að fara þessa leið að stofnað yrði matvælaráðuneyti sem færi með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál sem og hollustuvernd og horfa þá frekar til þess að málefni sem varða aðrar atvinnugreinar færu þá undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið sem þess vegna yrði þá kallað efnahags- og atvinnuvegaráðuneyti.