138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn eitt málið sem kemur með bægslagangi, vil ég leyfa mér að segja, inn í þingið og er hálfvanbúið í raun. Ég hef ýmislegt við frumvarpið að athuga og aðferðafræðina sem hér er viðhöfð og sett fram.

Frú forseti. Ég vil í upphafi taka fram að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið á móti því að skoða breytingar á Stjórnarráðinu eða stjórnkerfinu. Hins vegar höfum við haft skoðanir á því hvernig það er gert og ekki síst á hvaða tímapunkti við böslumst við það allt saman.

Frumvarp þetta er samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna, það er alveg ljóst. Af þeim orðum sem ég hef heyrt í dag, þ.e. af ræðum hæstv. ráðherra, þá get ég ekki betur heyrt en að niðurstaðan sé fyrir fram ákveðin. Niðurstaðan sem kemur fram í frumvarpinu er sú sem verða skal í haust. Því veltir maður eðlilega fyrir sér, hvaða tal er þetta um samráð og samskipti við aðra ef þetta er með þessum hætti? Hæstv. fjármálaráðherra hefur í fórum sínum ályktun frá flokksráði Vinstri grænna sem samþykkti á fundi sínum í janúar að endurskoða ætti öll áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins, með leyfi forseta:

„Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára. Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Er það virkilega þannig að frá því í janúar hafi samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn enn og aftur kengbeygt forustumenn Vinstri grænna í ríkisstjórninni til að fylgja þeim stefnuviðmiðum sem sá flokkur vill helst hafa uppi? Það er alveg ljóst að það hefur verið stefna Samfylkingarinnar í mörg ár að reyna að koma málum þannig fyrir að málefni landbúnaðar og sjávarútvegs verði sem veigaminnst og með þeim hætti að auðvelt sé að hafa „kontról“, ef ég má nota það orð, á öllu sem þar kemur, ekki síst í ljósi þeirra drauma sem sá ágæti flokkur hefur um að fara með Ísland undir alþjóðlega yfirvaldið í Brussel. Þetta tengist allt, það er alveg ljóst. Og liður í því að breyta ráðuneytunum er liður í þeirri vegferð að mínu mati.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lagt til að ráðuneytum verði fækkað úr tólf í níu og að færð verði saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum.“

Síðan er farið yfir málið og ýmsar hugmyndir reifaðar og annað en ég verð að segja það, frú forseti, að mér sýnist að það sé mjög djúpt á þessum samlegðaráhrifum og þau jafnvel frekar illa rökstudd. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.“ — Það á sem sagt að auka sérhæfingu með því að steypa ráðuneytunum saman í stærri pott. Er ekki nær að styrkja ráðuneytin eins og þau eru þannig að þau geti sérhæft sig í þeim málaflokkum sem þau glíma þegar við? Þetta finnst mér stangast á.

Síðan segir, með leyfi forseta, á bls. 2:

„Núverandi aðstæður gera það enn brýnna en ella að ráðuneyti og stofnanir endurmeti með opnum huga öll verkefni.“ — Núverandi aðstæður. Hvað með framtíðina? Hvernig sjáum við framtíð þessara málaflokka og þeirra stjórnsýslueininga sem hérna er um að ræða? Sjáum við fyrir okkur landbúnað, sjávarútveg og iðnað í einu bixi þar sem engu af þessu verður gert hátt undir höfði? Það er til þess eins að undirbúa að fella stjórnsýsluna enn frekar að stjórnsýslu Evrópusambandsins eins og lengi hefur verið ljóst.

Áfram ætla ég að halda áfram með greinargerðina. Á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Samhliða endurskipulagningu á ráðuneytum er unnið að heildarendurskipulagningu á stofnanakerfi ríkisins á grundvelli framtíðarsýnar um skilvirkan og þjónustumiðaðan ríkisrekstur. Sú endurskipulagning sem hér um ræðir er tengd við sóknaráætlun 20/20, sem lögð hefur verið fyrir Alþingi í tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt …“ — Það liggur við að maður þurfi að fara að auglýsa eftir þessu 20/20 því það hefur ekkert til þess spurst í mjög langan tíma. Er það virkilega þannig að það eigi að aðlaga og breyta ráðuneytunum til að koma til móts við miðstýringarhugmyndirnar sem koma fram í 20/20-áætluninni og í ræðum forsvarsmanna þess verkefnis? Það er að sjálfsögðu enn og aftur hluti af því að við erum að aðlaga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu, enda er 20/20-hugsunin og -hugmyndin sótt þangað.

Síðan stendur á bls. 4, ég ætla að lesa það, með leyfi forseta:

„Hvað tímasetningar varðar er gert ráð fyrir að sumarið verði nýtt til samráðs þannig að ljúka megi afgreiðslu frumvarpsins í haust.“ Síðan segir neðar:

„Eftir framlagningu frumvarps verður því sérstök áhersla lögð á víðtækt samráð á þeim vettvangi, m.a. við hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs, og framvindan metin í ljósi árangurs af því samráði.“

Það er hins vegar búið að gefa það út í fyrri setningunni að frumvarpið verði samþykkt í haust hvað sem tautar og raular með samráð og það sem kemur út úr því samstarfi sem á sér stað. Það hefur einnig komið fram í ræðum í dag og m.a. í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að 10 stór hagsmunasamtök á Íslandi furða sig á þessum vinnubrögðum og furða sig á því að þau skuli ekki hafa verið með í ráðum þegar frumvarpið var mótað. Það á mögulega að kalla þá aðila til núna þegar hlutirnir liggja fyrir og þá standa menn frammi fyrir orðnum hlut. Ef við þekkjum ríkisstjórnina rétt þá verður það ekki hægt fyrr en búið verður að troða nákvæmlega þessum hugmyndum niður í kok þingmanna. Þannig hafa vinnubrögðin verið.

Frú forseti. Það er ýmislegt fleira um frumvarpið að segja og vinnubrögðin í málinu. Ég ítreka það enn og aftur að Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin viljað taka þátt í umræðu um breytingar á Stjórnarráðinu og hefur talið rétt að hafa um það sem víðtækast samráð. Því tel ég að þær hugmyndir okkar eigi mjög vel upp á pallborðið hjá hæstv. fjármálaráðherra sem sjálfur sagði í þingsal, með leyfi forseta, í desember 2007:

„Að mínum dómi eiga grundvallarleikreglur eins og stjórnarskráin sjálf, kosningalög í landinu, þingsköpin og að mörgu leyti einnig skipan Stjórnarráðsins að kalla á að menn leggi mikið á sig til að ná samstöðu um breytingar. Það er ekki nýtt að á það sé bent og menn hafa gegnum tíðina jafnan talið sjálfgefið að þannig ætti að standa að málum.“

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri grænna, hefur talað fyrir samráði og því spyr maður sig hvort það verði hans hlutverk að sjá til þess nú að samráð við aðra stjórnmálaflokka, við hagsmunasamtök og aðra sem að þessu vilja koma verði að veruleika eða hvort það eigi að hunsa þetta eins og annað á þeim bænum þegar kemur að málum tengdum ríkisstjórninni. Þá er einfaldlega hlaupið á eftir duttlungum Samfylkingarinnar.

Það er búið að ræða ýmsa þætti er lúta að þessum ráðuneytum. Það hefur komið fram í fjölmiðlum. Ég hef frétt af vefsíðunni Tíðarandanum þar sem fjallað er um þessar hugmyndir um breytingar á Stjórnarráðinu, kostnað og annað slíkt. Hér segir, með leyfi forseta:

„Á meðal starfsmanna Stjórnarráðsins eru miklar efasemdir um málið, einkum um sparnaðaráhrif.“

Þetta kemur að sjálfsögðu heim og saman við reynslu starfsmanna Stjórnarráðsins af slíkum sameiningum samanber það sem ég vitnaði til áðan í riti fjármálaráðuneytisins frá 2008 þar sem kemur fram að svona stórar sameiningar heppnast einungis í 15% tilvika. Fyrst spyr maður sig hvort þarna sé betra heima setið en af stað farið. Síðan segir hér, frú forseti:

„Ráðuneytin [eru] nú þegar undirmönnuð og væntur sparnaður af sameiningu byggi[r] á óskhyggju fremur en veruleika.“ — Enn fremur segir á þessari fréttasíðu, og við verðum að hafa það í huga að þetta er vitanlega fréttasíða, að miklar efasemdir séu innan Stjórnarráðsins. Vill fréttamaðurinn í það minnsta benda á að bak við tölur um sparnað og annað sem nefnt er í frumvarpinu liggja ekki neinar áætlanir. Hægt sé að ná fram töluverðum sparnaði t.d. með því að fækka ráðherrum í rauninni og minnka allt umstang í kringum þá en ekki fækka ráðuneytum. Það er eitt af því sem hér er nefnt. Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi verið skoðað.

Öll helstu samtök sem koma að þeim atvinnuvegum sem þarna um ræðir hafa mótmælt þessu á einn eða annan hátt og hafa sagt að það leggist gegn þeim hagsmunum er þau berjast fyrir og um leið hagsmunum þjóðarinnar, að gera þetta með þessum hætti.

Það er líka sérkennilegt ef maður horfir á Vinstri græna í þessu sambandi að forsvarsmenn flokksins hafa ekki meðtekið þá ábendingu sem Vinstri græn fengu í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þar fékk sá flokkur einna mest á baukinn þegar horft er á landið í heild. Það er ekki hægt að sjá skýrari skilaboð um að kjósendur hafi verið óánægðir með þá stefnu sem var viðhöfð. Nú hlæja í hliðarsal samfylkingarþingmenn sem ég held að ættu að líta í eigin barm líkt og við framsóknarmenn höfum gert í Reykjavík.

Fram undan er, samkvæmt því sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar segja, töluvert mikil vinna við að fara í gegnum málið. Ég leyfi mér því miður, frú forseti, að efast um að svo sé. Ég held að það sé búið að semja um lok málsins vegna þess að ef svo er ekki gæti það truflað þá vegferð sem ríkisstjórnin hefur hafið, og ég tek það fram að það eru mjög skiptar skoðanir um hana innan Vinstri grænna, þ.e. aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er ekkert annað veigameira í frumvarpinu heldur en akkúrat þetta. Það er mjög sérkennilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra, formann Vinstri grænna, skauta létt yfir þann mikla ágreining sem er í flokki hans um þetta mál, ekki bara á Alþingi heldur úti um allt land. Það sjáum við og þekkjum og við munum eftir ályktunum sem komið hafa um það mál. Við hljótum að gera þá kröfu að stjórnsýslan, sem fjallar um þær undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar sem við byggjum að hluta til okkar sjálfbærni á og sjálfstæði, verði ekki lögð í það púkk sem menn díla um núna varðandi Evrópusambandið.

Við sáum áðan ágætt dæmi þegar rætt var um hvalveiðar og hvernig á að tækla þær. Þjóðverjar eru nánast búnir að segja að Íslendingar verði að hætta hvalveiðum, það er nánast búið að gefa það út. Er ætlunin að halda áfram þessari vegferð með það upp á vasann að Þjóðverjar eru búnir að segja okkur að við verðum að hætta hvalveiðum? Ætla menn að halda áfram í ljósi þess að það er líka búið að segja að engar varanlegar undanþágur séu í boði, aðeins tímabundnar tilslakanir? Ætlum við þá að gefa eftir rétt okkar til að stunda hvalveiðar? Mönnum getur fundist hvað sem er um það hvort hvalveiðar séu merkilegar eða ekki en þær eru hluti af sjávarútvegsstefnu landsins. Þær eru hluti af sjávarútvegsstefnunni og við hljótum að horfa á þær með sömu augum og aðrar atvinnugreinar. Það er því alveg ljóst, frú forseti, að gangi plön ríkisstjórnarinnar eftir um þessa sameiningu — það mun að sjálfsögðu reyna á það í sumar og haust hversu mikill vilji er til að eiga samráð um þetta stóra mál — þá mun koma í ljós hvað raunverulega býr að baki.

Í frumvarpinu er verið að leggja til fastmótaðar tillögur um hvernig ráðuneytið muni líta út. Ég sakna þess að ekki er í rauninni opnað á það að aðrar hugmyndir séu skoðaðar. Það er ekki verið að opna á það sem hér hefur verið rætt, t.d. varðandi matvælaráðuneytið, en af orðum hæstv. fjármálaráðherra vona ég svo sannarlega að þeirri hugmynd verði að minnsta kosti gefinn smásjens og að hún verði skoðuð ofan í kjölinn.

Síðan er vitanlega nauðsynlegt að benda á að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið afar duglegur við að benda á hversu vitlaust það sé að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar talar hæstv. ráðherra að sjálfsögðu af reynslu enda þekkir hann málaflokkinn vel og hefur verið ráðherra um þó nokkurt skeið í ráðuneytinu. Það hefur líka komið fram í orðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að áform um sameiningu ráðuneytanna samkvæmt sáttmála ríkisstjórnarinnar voru ódagsett. Því hljótum við að velta fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum sé verið að ana áfram með málið á þessari stundu þegar það liggur ekki fyrir, ekki búið að staðreyna, ekki búið að sýna og sanna að þessi sparnaður verði að veruleika. Það eina sem við vitum hins vegar er að hér er hraðlest á ferðinni inn í Evrópusambandið og ríkisstjórnin er þar að mestu leyti, fyrir utan einn líklega, á fyrsta farrými. Það er einfaldlega þannig.

Ég velti líka fyrir mér hvort það sé ástæða til að minna á að það eru margar aðrar leiðir til að sameina ráðuneyti og jafnvel af mun meiri skynsemi ef það er markmiðið. Við munum að við vorum með eitt iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sem gafst ágætlega. Sú nýja ríkisstjórn sem hér er við völd ákvað hins vegar að skipta því upp. Það er ekkert sem bannar að farið verði aftur í sama farið. Það er hægt að ræða um umhverfisráðuneyti með öðrum ráðuneytum, mennta- og menningarmálaráðuneyti svo dæmi sé tekið. Það hefur hins vegar verið yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar, sem er að sjálfsögðu hennar val, að lyfta umhverfisráðuneytinu og gera veg þess meiri. En það kemur líka fram að ætlunin er, ef ég skil frumvarpið rétt, að færa þau verkefni sem nú þegar eru t.d. í sjávarútvegsráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins. Þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þarf að taka ákvarðanir um þau mál þá verður umhverfisráðuneytið að vera búið að heimila það og blessa.

Hér stendur, með leyfi forseta, um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:

„Nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti tekur til allra atvinnugreina utan opinbera geirans og fjármálamarkaðarins.“ — Nú má velta fyrir sér af hverju það sé. Þetta eru ekki litlar atvinnugreinar. — „Þar verða teknar ákvarðanir um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.“ — Samkvæmt þessu á að veita umhverfis- og auðlindaráðuneyti, eins og það mun heita, vald til að segja við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið: Þið megið samkvæmt okkar ráðgjöf veiða svona mikinn fisk, hafa kvótann svona og landbúnaðarkvótann með þessum hætti og landbúnaðarafurðirnar og allt sem við erum að díla um. Viljum við þetta? Viljum við gera í raun landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið eða nýtt atvinnuvegaráðuneyti eða hvað það heitir í sjálfu sér áhrifalaust varðandi þau mál er heyra undir það, svo sem varðandi aflaheimildir? Samkvæmt þessu verður ekki hægt að gera neitt nema fyrst komi til ráðgjöf eða stimpill frá umhverfisráðuneytinu. Ég sé fyrir mér töluvert flækjustig og árekstra þar.

Haldnar hafa verið nokkrar ræður um þetta mál og samráð hefur verið ofarlega á baugi. Því miður hefur þingsalur misjafna reynslu í bland af samráði. Dæmi eru um að hér séu enn stunduð þau vinnubrögð að mál séu keyrð í gegn og tekin út í ósætti og slíkt. Það er vitanlega ljóst að svo verður gert ef þetta er einbeittur vilji forustumanna ríkisstjórnarinnar — ég vil segja forustumanna ríkisstjórnarinnar og nota þau orð því ég veit að á bak við þessar hugmyndir og breytingar er alls ekki einhugur innan stjórnarflokkanna. Er það virkilega svo að fara eigi með málið í gegn án þess að sátt um það náist, þrátt fyrir fögur orð á fyrri stigum?

Frú forseti. Í lok ræðu minnar kem ég enn og aftur að því sem ég held að sé meginástæðan fyrir þessum breytingum. Það mun að sjálfsögðu koma í ljós hvort ég hef rétt fyrir mér. Ef boðið verður upp á aðra hluti, sátt og samræður um málið, skoðaðar verða aðrar lausnir og niðurstaðan verður önnur, þá hef ég væntanlega rangt fyrir mér. Ég vona svo sannarlega, frú forseti, að ég hafi rangt fyrir mér um þær breytingar sem hér eru boðaðar, að þær séu gerðar til að flýta fyrir aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn stynja yfir þeirri skoðun minni og því sem ég held fram. Það er mín bjargfasta trú að það sé mál númer eitt, tvö og þrjú á bak við þetta. Flýtirinn við að gera þetta með þessum hætti, koma með frumvarpið inn í þingið með þeim bægslagangi sem það er gert og neyða þingið í raun til að taka málið á dagskrá í stað þess að ræða það undir eðlilegum kringumstæðum í haust, er að sjálfsögðu hluti af því að menn og stjórnvöld vilja senda út „rétt“ skilaboð til Evrópu.

Það er nefnilega sorglegt að það skuli blandast inn í þetta með þessum hætti því nauðsynleg umræða um breytingar á Stjórnarráðinu mun að sjálfsögðu litast af þessu. Því er mjög mikilvægt á næstu vikum og mánuðum að ríkisstjórnin og þeir sem leiða þessa vinnu muni sannreyna það og sýna fram á að sá sem stendur hér túlki málið á rangan hátt, að ég hafi rangt fyrir mér. Ég vona svo sannarlega að svo sé því ég get alls ekki staðið hér og fellt mig við það að grunnatvinnuvegunum verði fórnað í einhverju bixi til að flýta fyrir vegferðinni inn í Evrópusambandið. Ég lít svo á að verði þessi sameining að veruleika sé verið að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Verið sé að leggja það niður en ekki sameina það öðru ráðuneyti eða annað ráðuneyti því. Heiti ráðuneytisins mun að sjálfsögðu breytast og þá er ekkert ráðuneyti sem gefur skýrt til kynna hversu mikilvægir þessir atvinnuvegir eru fyrir íslenska þjóð. Við erum annars vegar að tala um sjávarútveginn sem skapar líklega um 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar í dag og hins vegar landbúnaðinn sem sparar verulega gjaldeyristekjur fyrir þjóðina. Að fara þessa leið er að mínu viti rangt út á við og einnig rangt inn á við.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að svo komnu máli en óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.