138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:36]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Við afgreiðslu á þingflokksfundi VG um frumvarp um breytingu á Stjórnarráðinu mánudaginn 31. maí sl. lagðist ég gegn framlagningu þess og bókaði eftirfarandi rök, með leyfi frú forseta:

„1. Samning frumvarpsins og framlagning er í andstöðu við reglur samkvæmt handbók forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og skrifstofu Alþingis um undirbúning og frágang lagafrumvarpa frá því í nóvember 2007, samanber einnig ræður mínar á Alþingi við stjórnarráðsbreytingar á haustþingi 2007. Eftirásamráð, þarfagreining o.fl. breytir hér engu þegar ákvarðanir hafa verið teknar.

2. Tímasetning er að mínu mati röng í ljósi þess að öll ráðuneytin eru önnum kafin vegna uppbyggingar Íslands eftir efnahagshrunið og ekki síður í tengslum við ESB-umsókn.

3. Samkvæmt frumvarpinu verða ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð fjórir á móti fimm ráðherrum Samfylkingarinnar í stað fimm og fimm eða fjórir og fjórir. Það veikir pólitíska stöðu VG.

4. Um leið grefur frumvarpið undan baráttu okkar gegn ESB bæði út frá fækkun ráðherra og eins út frá því að gert er ráð fyrir því að helsti talsmaður VG innan ríkisstjórnarinnar gegn ESB-umsókn og aðlögunarferli víki sem ráðherra.

5. Frumvarpið fer gegn samþykkt flokksráðsfundar VG, haldinn á Akureyri 15.–16. janúar 2010.

6. Mikil andstaða er á landsbyggðinni og fjöldi hagsmunasamtaka hefur ályktað gegn því, einkum hvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið varðar.

7. Þverpólitískrar samstöðu hefur ekki verið leitað.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég leggst almennt ekki gegn sameiningu og breyttri verkaskiptingu sem unnin er lýðræðislega frá grunni í samræmi við áður tilvitnaða handbók og að tímasetningar séu réttar. Enn fremur séu verkefni flutt til þeirra ráðuneyta sem rétt sé að sinni þeim út af fyrirframþarfagreiningu og samráði við hagsmunaaðila.“

Að þessari bókun standa einnig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason.