138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að koma hér upp í kjölfar ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar og heyra þann ágreining sem reynist vera innan stjórnarflokkanna um þetta mál og það kemur svo sem ekkert á óvart, við höfum skynjað hann á síðustu dögum og vikum hvað þetta mál varðar en einnig um fjölmörg önnur mál.

Mig langar í upphafi máls míns að fjalla aðeins almennt um fækkun ráðuneyta og skynsemi þess. Framsóknarflokkurinn hefur eins og margir aðrir flokkar ályktað í þá veru á landsfundum sínum að það sé ekki óskynsamlegt og síðan er það kannski spurning með hvaða hætti menn gera það og hvaða afrakstur er af því. Hér hefur talsvert verið fjallað um frumvarpið sjálft eins og eðlilegt er og þær beinu tillögur sem þar eru, m.a. hefur verið nefnt velferðarráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti og menn hafa vitnað til fortíðarinnar um það og það má alveg gera það. Í Handbók Alþingis sem dreift var fyrir nokkrum dögum á borð okkar þingmanna getum við farið til þriðja, fjórða og fimmta áratugarins og séð að ráðuneytin voru aðeins þrjú til fimm, kannski væri skynsamlegt að stefna að því og byggja þetta upp með þeim hætti og þá væri ábyggilega pláss fyrir eitt atvinnuvegaráðuneyti ef ráðuneytin væru til að mynda aðeins þrjú. Á sjötta og kannski aðallega á sjöunda áratugnum voru félagsmál, heilbrigðis- og tryggingamál gjarnan á hendi sama ráðherra og þar af leiðandi sama ráðuneytis og það er kannski velferðarráðuneyti og ég tek undir að það gæti verið margt skynsamlegt í því.

Málin hafa hins vegar þróast út í það að hér eru ansi margir ráðherrar og við viljum þar af leiðandi leita eftir sparnaði. Því er mjög áhugavert að velta þeirri spurningu upp, sem við gerðum í andsvari við hæstv. forsætisráðherra: Hvernig hefur gengið að sameina ríkisstofnanir og hvaða markmið hafa menn sett sér, hvernig á að mæla það og á hvaða tíma? Staðreyndin er sú að þetta hefur ekki verið gert. Það er hvorki gerð tilraun til þess í þessu frumvarpi að setja fram slík skilgreind markmið né heldur hvernig skuli mæla og hvaða ávinningi menn ætli að ná. Það er talið, segir í lok umsagnar fjármálaráðuneytisins, að ef allt muni skila sér geti þetta leitt til um 360 millj. kr. lækkunar á kostnaði á ári eftir einhver ár en væntanlega er kostnaðurinn meiri hér til að byrja með.

Svo vitnað sé aðeins til greinargerðarinnar stendur þar, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum fyrir árið 2010 var gripið til aðgerða sem leiddu til 43 milljarða kr. lækkunar útgjalda frá því sem annars hefði orðið og við afgreiðslu á fjárlögunum var áætlað að samkvæmt markmiði ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum þyrfti að bæta afkomu ríkissjóðs um allt að 50 milljarða kr. á árinu 2011. Fyrirsjáanlegt er að verulegur hluti afkomubatans á árinu 2011 verði að koma til með lækkun ríkisútgjalda.“

Þetta kemur svo sem ekki á óvart.

Aðeins seinna í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:

„Veikleika stofnanakerfisins gagnvart öflugum hagsmunum í atvinnulífinu má að nokkru leyti skýra með smæð þess og takmörkuðum mannafla.”

Nú verðum við auðvitað að velta því fyrir okkur hvort við erum fyrst og fremst að tala um fjármál og sparnað, og sá sparnaður mun ekki skila sér fyrr en á næstu árum, ekki á árinu 2010 og væntanlega í mjög litlu magni á árinu 2011, því að hvernig ætlum við annars vegar að efla ráðuneytin og stofnanirnar og hins vegar á sama tíma að fara að draga saman og segja upp fólki? Verkefnin eru þarna eftir sem áður.

Hins vegar er undirtónninn sums staðar í greinargerðinni sá að til lengri tíma eigi að styrkja embættismannakerfið gagnvart öðrum og það er líka umhugsunarefni hvort það sé hin rétta pólitíska handleiðsla.

Það stendur líka hér, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Sameiningar ráðuneyta og stofnana geta tekið nokkurn tíma t.d. þar til fjárhagslegur ávinningur skilar sér að fullu. Um er að ræða flókið ferli og því er afar mikilvægt að vanda vinnu við undirbúning og framkvæmd sem best.“

Þá getur maður spurt sig: Hefur það verið gert? Hvar eru áætlanirnar um markmiðin, hvernig á að mæla þetta og á hvaða tíma? Í þessi sparnaður að skila sér núna vegna 2011 eða erum við að tala um eitthvert langtíma- og framtíðarplan?

Á sama tíma höfum við verið að setja ný lög þar sem við höfum verið að skjóta upp nýjum stofnunum, jafnvel allt niður í eins, tveggja eða þriggja manna stofnanir. Það er því ekki alveg eins og hægri höndin viti hvað sú vinstri gjörir.

Tímasetningin, ég ætla að taka undir það sem nokkrir þingmenn hafa komið að, þetta er afar vitlaus tími. Við erum að rugga bátnum á viðkvæmum tíma við endurreisn atvinnulífsins og uppbyggingu efnahagslífsins og í raun stjórnsýslunnar og það er erfitt að standa að þessu öllu í einu á sama tíma og við erum að fara í miklar breytingar. Þetta veikir stjórnsýsluna og hún var veik fyrir. Maður veltir fyrir sér, eins og komið hefur fram hjá einstaka hv. þingmanni, hvort það sé vegna Evrópusambandsaðildarinnar sem menn eru hreinlega markvisst að veikja til að mynda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin sem í skýrslu Evrópusambandsins hefur þó verið bent á að séu allt of veik fyrir, sérstaklega landbúnaðarráðuneytið. Þetta er svolítið sérstakt. En ef við horfum á tímasetninguna bara út frá sjónarhóli starfsfólksins er einasta leiðin sem hægt er að ná upp sparnaði — og það kom m.a. fram í svari hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag, hæstv. ráðherra nefndi ávinninginn hjá lögreglunni og það er fyrst og fremst vegna fækkunar yfirmanna lögreglu, þ.e. að fækka lögreglumönnum og síðan einstaka aðrir hlutir, en það er þó ekki nema einn þriðji af því sem menn ætluðu að ná fram í sparnaði og það er alveg óljóst hvernig á að ná öðrum sparnaði.

Svo virðist til að mynda vera, ef við hugsum okkur það eitt að sameina nokkur ráðuneyti í eitt, að það þurfi að segja upp ráðuneytisstjórum og skrifstofustjórum. Hvernig á á sama tíma að hvetja það fólk til að vinna extravinnu, m.a. að Evrópusambandsumsókninni sem hugsanlega fer á fullt eftir ákvörðun sambandsins á morgun, 17. júní af öllum dögum? Eins hangir í loftinu, ef við ræðum atvinnuvegaráðuneytin, þ.e. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið eins og það heitir í dag, að það gæti þurft að fara í mikla vinnu varðandi nýjar umræður um WTO. Hvernig á að segja upp fólki og vekja óvissu um starfsöryggi þess og á sama tíma að hvetja það til að vinna extra við sífellt lægra kaup og erfiðari starfsskilyrði? Ég get ekki skilið hvernig þetta getur verið snjöll tímasetning, ég verð að segja alveg eins og er.

Síðan er kannski ein spurning: Hvernig á að standa að þessu? Auðvitað er alltaf hægt að deila um hvernig samráð eigi að vera, á hvaða tímapunkti það kemur inn og hvenær það er skynsamlegast, en ég hefði talið eðlilegast að menn hefðu lagt hér upp með betri og skynsamlegri eða dýpri þarfagreiningu sem hefði byggst á verkefnaflutningi. Ég tek undir það sem nokkrir þingmenn hafa nefnt hér og hefur verið skoðun mín lengi að það væri kannski skynsamlegra að hafa þessa hluti með ráðuneytin og Stjórnarráðið lausari þannig að hægt væri að breyta með einfaldari hætti en þá þarf greiningin að vera skýr og snúast fyrst og fremst um verkefnaflutning en ekki endilega pólitískar meiningar. Maður veltir fyrir sér hvort hæstv. ríkisstjórn sé hér með lista frá til að mynda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eins og stundum hefur verið nefnt, og verið sé að haka við það sem farið er inn samkvæmt kröfum hans.

Aðeins í sambandi við einstök ráðuneyti, ég hef nefnt fyrr í ræðu minni velferðarráðuneytið og ég tek undir það sem komið hefur fram hjá ýmsum ræðumönnum, eins og t.d. hæstv. fjármálaráðherra, að þar gæti verið nokkuð að spara. Við getum horft til þess að þar séu talsvert margir þættir sem snúa að samlegðaráhrifum og augljósum og ef við horfum bara 20 ár aftur í tímann var það einmitt með þeim hætti sem við höfðum þetta í landinu og þetta gæti verið skynsamlegt og mundi skila nokkrum árangri.

Eins má segja með innanríkisráðuneyti að það gæti verið skynsamleg ráðstöfun, það hefur reyndar verið mín skoðun lengi að það væri skynsamlegt að ná þessu öllu saman undir einn hatt. Ég tek undir það sem kemur fram í greinargerðinni um helstu rökin, þ.e. samþætting á sviði öryggismála og að stærra ráðuneyti væri færara um að hafa eftirlit með stórum og öflugum stofnunum og þær verði kannski einsleitari á landsvísu. Það sem maður verður hins vegar að varast og passa er að þjónustan verði ekki öll miðstýrð frá einum stað úr Reykjavík, þá verður sparnaðurinn hugsanlega fljótur að fara út vegna ferðakostnaðar og alls kyns annarra hluta, menn verða að kunna að deila út verkefnum og halda uppi uppbyggingu öflugra stjórnsýslumiðstöðva á ýmsum stöðum, sem reyndar er nefnt hér sem einn af þeim þáttum sem rök væru fyrir. Ég tek undir að þetta gæti verið skynsamlegt.

Þá kem ég að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Það er auðvitað hin pólitíska yfirlýsing, sem m.a. hefur komið fram hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna sem hér hafa talað að sé þeirra hjartans mál, það má vel vera að það sé það og við gætum tekið þá umræðu. En ég velti því fyrir mér: Var það gert á grundvelli þarfagreiningar eða bara pólitískra markmiða? Er það gert á grundvelli skynsamlegra verkefnaflutninga þar sem samlegðaráhrifin eru eða er það bara pólitískur ávinningur?

Að lokum ætla ég að nefna í nokkrum orðum og kannski fjölmörgum það sem mér finnst vera galnast í þessu og það er atvinnuvegaráðuneytið. Ef menn hefðu farið í skynsamlega þarfagreiningu og velt fyrir sér hvaða verkefni liggja fyrir í slíku ráðuneyti og hvaða samlegðaráhrifum menn ætla að ná hefðu menn séð að það væru meiri rök fyrir því að hafa hér matvælaráðuneyti en atvinnuvegaráðuneyti. Eins og ég nefndi fyrr, ef við værum við að tala um þrjú, fjögur ráðuneyti, eins og á þriðja, fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, gætum við kannski haft eitt atvinnuvegaráðuneyti. En þegar við erum að tala um níu, og kannski væri nóg að hafa átta ráðuneyti og ráðherra alla vega, held ég að væri afar skynsamlegt að hafa hér matvælaráðuneyti og ég ætla að færa fyrir því nokkur rök. Við höfum fjallað um það á liðnum árum á fjölmörgum þingum þar sem við höfum verið að koma á fót mjög öflugri stofnun, Matvælastofnun, og að færa allt matvælaeftirlit í landinu undir eina stofnun. Það hefur verið gert m.a. á grundvelli Evrópusambandstilskipana, einna sex tilskipana, og þetta tókst á yfirstandandi þingi. Ég held að þarna höfum við kannski náð þeim samlegðaráhrifum í matvælabransanum sem menn hafa verið að leita eftir. Þess vegna er svolítið óskiljanlegt að mínu viti að sömu hugsunar skuli ekki gæta þegar menn fara að velta fyrir sér ráðuneytis- og stjórnarráðsskiptingunni.

Í því ljósi verðum við að minnast þess að við erum ekki eins og hvert annað meðalríki í Evrópu. Hér er sjávarútvegur alveg gríðarlega öflug atvinnugrein, sennilega er útflutningsmikilvægi hans aftur orðið um 40% þó að það hafi farið niður á árunum 2006 og 2007 og jafnvel 2008. Landbúnaðurinn er okkur gríðarlega mikilvægur líka, ekki síst hvað varðar fæðuöryggi og ákveðna öryggisstaðla sem tryggir það að við getum verið sjálfstæð þjóð ef eitthvað annað kæmi upp í heiminum sem við sjáum ekki fyrir. Í dag framleiðum við aðeins um 50% af þeim landbúnaðarvörum sem við neytum og það er algjört lágmark þess sem væri skynsamlegt. Ég tel að öflugt matvælaráðuneyti mundi geta komið þarna vel að verki annars vegar til að efla og styrkja sjávarútveginn, sem verður okkar helsta atvinnugrein um langan tíma vonandi, þó að auðvitað viljum við fá fleiri egg í körfuna og vera með fjölbreyttara atvinnulíf en við höfum haft um langt skeið, og eins að styrkja landbúnaðarhlutann.

Síðan eru ákveðin samlegðaráhrif. Ef við til að mynda færum ferðaþjónustuna undir matvælaráðuneytið vegna þess að ferðaþjónustan byggir auðvitað mjög mikið á íslensku hráefni og ef við tökum einstaka þætti ferðaþjónustunnar eins og „Beint frá býli“ eða slíka þætti eru það auðvitað augljós tengsl við matvælaframleiðsluna. Eins getum við líka velt fyrir okkur ýmsum sýningum aðila í ferðaþjónusturekstri, sérstaklega í landbúnaði eða úti um byggðir landsins, en það er einnig vaxandi áhugi á því í sjávarútveginum að koma að ferðaþjónustunni, sýna atvinnugreinina og ná slíkum tengslum og samlegðaráhrifum. Þetta er eitthvað sem við ættum að skoða.

Ég heyrði á ræðu hæstv. fjármálaráðherra að hann tók undir það að skynsamlegt væri að skoða matvælaráðuneyti. Hv. þm. Atli Gíslason ítrekaði mikilvægi þess og kom inn á skoðanir Vinstri grænna, þriggja þingmanna sem höfðu bókað það í þingflokki Vinstri grænna. Þingmenn Samfylkingarinnar fyrir nokkrum árum, þar á meðal hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, tók undir slík mál, að það væri skynsamlegt að stofna matvælaráðuneyti þegar lögð var fram þingsályktunartillaga þess efnis fyrir nokkrum árum af einum af þáverandi þingmönnum eða varaþingmönnum Samfylkingarinnar og undir það tóku fleiri þingmenn þess flokks. Ég held að við séum í raun og veru að tala um eitthvað sem skiptir máli og við ættum að velta því fyrir okkur hvort þarfagreining, eðlilegt samráð á fyrsta stigi, hefði ekki leitt til þess að í frumvarpinu hefði staðið að hér skyldi vera matvælaráðuneyti í stað atvinnuvegaráðuneytis.

Síðan mætti velta fyrir sér hvort önnur verkefni til, að mynda eins og fjármál er snerta samninga eins og ívilnanir og slíka hluti við iðnfyrirtæki, ættu ekki frekar heima í fjármálaráðuneytinu, enda hefur það komið fram að iðnaðarráðuneytið er afar lítið og veikburða ráðuneyti í sjálfu sér og því ætti að vera auðvelt að skipta því upp í núverandi ráðuneyti og færa þau verkefni til annarra þátta. Ég held að við ættum að íhuga þetta.

Ég ætla að enda ræðu mína á því sem ég hóf hana á, að benda á að það er mjög merkilegt að hér skuli vera stjórnarfrumvarp á ferðinni þar sem stór hluti af þingmönnum annars stjórnarflokksins, þar á meðal einn ráðherra, skuli beinlínis leggjast gegn því og hafa lagt til að það kæmi ekki fram. Þetta er auðvitað merkilegt ástand sem við því miður upplifum hér aftur og aftur. Sumir halda því fram að þetta sé merki um nýja lýðræðistíma en það virðist vera að þetta sé kannski frekar merki um að ríkisstjórnin gangi afar óstyrk og ósamstiga til nánast allra verka.

Maður veltir fyrir sér hvort hin furðulega ákvörðun, tímasetning vil ég enn og aftur segja, að sækja um aðild að Evrópusambandinu á síðastliðnu sumri hafi valdið þeim trúnaðarbresti sem er á milli stjórnarflokkanna í mörgum málum. Ég held að sá efi og tortryggni sem ríkir orðið í samfélaginu í garð Evrópusambandsins, og kemur m.a. fram í því að um 60% landsmanna telja að draga eigi umsóknina til baka, geri það að verkum að menn fyllast nokkrum efasemdum um hvort þetta stjórnarráðsfrumvarp snúi m.a. að því að veikja stjórnsýsluna til að auðveldara sé að fara í aðlögunarferlið, því að eins og fram hefur komið, m.a. í umræðum um hvalveiðar og fleiri hluti, landbúnaðinn og sjávarútveginn, erum við að fara inn í aðlögun að evrópsku umhverfi en umsóknarferlið snýr að aðlögunarferlinu. Þetta er umhugsunarefni sem við þurfum að velta fyrir okkur. Ég vona svo sannarlega að í umfjöllun í nefndum taki menn þetta til alvarlegrar skoðunar og íhugunar, til að mynda hvort matvælaráðuneytið sé ekki miklu skynsamlegri leið á Íslandi við þær aðstæður sem við búum við því að við erum ekki eitthvert meðaliðnríki í miðri Evrópu.