138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það sem hefur vakið athygli þeirra sem hafa hlustað á umræðuna og ég tala ekki um þeirra sem hafa lesið frumvarpið er að þetta eru fyrst og fremst slagorð. Þetta er varla frumvarp, þetta eru fyrst og fremst slagorð. Við höfum séð að hæstv. forsætisráðherra hefur litið svo á að það að hræra í stjórnkerfinu sé eitthvert sérstakt tæki til að ná í vinsældir og vegna þess að fólk er fljótt að gleyma ætla ég að fara aðeins yfir hvað hefur gerst á síðustu tveim, þrem árum í þeim efnum.

Árið 2009 hætti dóms- og kirkjumálaráðuneytið að heita dóms- og kirkjumálaráðuneyti og heitir dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Það er nokkurn veginn einsdæmi í heiminum, ég held að það sé í Lesótó sem eitthvert ráðuneyti heitir mannréttindaráðuneyti og allt í góðu með það. En núna árið 2010 ætla menn að breyta dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og sameina það samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og láta það heita innanríkisráðuneyti. Einhver kynni að spyrja: Af hverju var verið að breyta nafninu með tilheyrandi kostnaði ári áður en menn fara að breyta ráðuneytinu aftur? Er þetta ráðdeild og hagræði í ríkisrekstri? Eru þetta skilaboðin sem menn ætla að gefa hér til stofnana og almennings um það hvernig haga eigi ríkisfjármálum?

Árið 2007 varð samgönguráðuneytið að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti en núna 2010 á það að sameinast dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og verða innanríkisráðuneyti.

Árið 2007 var viðskiptaráðuneytinu og iðnaðarráðuneytinu skipt upp og tóku ráðherrar Samfylkingarinnar við þeim ráðuneytum. En 2009 var viðskiptaráðuneytið sameinað í efnahags- og viðskiptaráðuneyti og árið 2010 á iðnaðarráðuneytið að fara ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Árið 2007 var heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu sérstaklega skipt upp í tíð Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Ein helstu rökin fyrir því voru þau að það væri mjög skynsamlegt að skilja þessa málaflokka að og mjög mikilvægt að um væri að ræða hreint heilbrigðisráðuneyti sem væri bara með heilbrigðismálin. Þetta var fyrir tveimur árum síðan. Núna á að sameina heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið í velferðarráðuneyti, en árið 2007 tók félagsmálaráðuneytið við tryggingahluta heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og sveitarstjórnarmálin voru færð yfir í samgöngumálin.

Árið 2007 voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sameinuð en árið 2010 á að bæta við iðnaðarráðuneyti og búa til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Og loks núna árið 2010 ætla menn hvorki meira né minna en að bæta við nafn umhverfisráðuneytisins þannig að það heiti umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Virðulegi forseti. Hver nafnbreyting, svo við tökum bara nafnbreytinguna, kostar nokkrar milljónir. (PHB: Og lengir ræðutímann.) Já, og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á að það lengi ræðutímann, menn þurfi að fara með lengri nöfn en áður og það kemur auðvitað niður á störfum þingsins en látum það liggja á milli hluta.

Hér eru menn búnir að vera að hræra í nöfnum ráðuneyta og verkefnum og ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um kostnaðinn bara við síðustu nafnbreytingarnar og það voru nokkrar milljónir. Það er hins vegar bara toppurinn á ísjakanum. Það er gríðarlegur kostnaður, vinnustundir og annað slíkt sem fer í að færa verkefni á milli ráðuneyta. Í ofanálag hafa menn ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu þannig að það fólk sem þarna starfar fékk alveg extra verkefni fyrir utan eina bankakreppu og gjörbreytta stöðu í ríkisfjármálum en látum það liggja á milli hluta.

Sjáum nú hvernig ríkisútgjöldin líta út ef framganga forsætisráðherra nær fram eða eigum við að segja ríkisstjórnarinnar, af því að ég sé hérna hv. þingmann VG, sem er held ég eini stuðningsmaður hæstv. forsætisráðherra í þingflokki VG, einn af sárafáum, en almenna reglan er sú að hv. þingmenn VG koma hér og mótmæla þessu hástöfum. Einn og einn sem hristir höfuðið, já, sleppum því. (ÁÞS: Það held ég nú að þú ættir að gera.) Hv. þingmaður talar kannski um málið á eftir og hjólar þá væntanlega í samflokksmenn sína í VG sem hafa fundið þessu máli af ástæðu allt til foráttu.

Ef við förum yfir hvernig ríkisútgjöldin skiptast ef þessi nýju ráðuneyti ná fram að ganga verður innanríkisráðuneytið með 13,5% af ríkisútgjöldunum, velferðarráðuneytið verður með 50%, virðulegi forseti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið verður með 5%, umhverfis- og auðlindaráðuneytið með 1,5%, forsætisráðuneytið með 0,75%, mennta- og menningarmálaráðuneytið með 13%, utanríkisráðuneytið með 2,6%, fjármálaráðuneytið með 12%, efnahags- og viðskiptaráðuneytið með 0,6%.

Virðulegi forseti. Eitt ráðuneyti verður með helminginn af ríkisútgjöldunum og rökin fyrir því eru ekki tíunduð hér. Hvernig ná á fram hagræðingu eða sparnaði þar er ekki tíundað í þessu frumvarpi eða í fylgigögnum með því. Það hefur hins vegar komið fram í umræðunni og hæstv. ráðherra farið yfir það að hér séu alveg gríðarlegir hagræðingarmöguleikar. Við hljótum, virðulegi forseti, að kalla eftir því í hv. heilbrigðisnefnd að fundað verði um það og fyrirætlanir hæstv. forsætisráðherra um sparnað við sameiningu þessara tveggja ráðuneyta útskýrðar. Hæstv. forsætisráðherra kom hér og sagði að þetta væri allt uppi á borðinu, það væri enginn feluleikur í þessu. Við hljótum að kalla eftir því og ég mun fara fram á það að hv. heilbrigðisnefnd komi saman og ræði sérstaklega hugmyndirnar um að ná fram sparnaði í þessum tveimur ráðuneytum við sameiningu þeirra. Það kemur nefnilega ekki fram í gögnunum, virðulegi forseti, það kemur þvert á móti fram í gögnum frumvarpsins að menn hafa ekki reiknað út neinn sparnað, ekki nokkurn, og ekki heldur kostnaðinn í kringum þetta, það kemur skýrt fram. Talað er um að það séu gríðarleg tækifæri í húsnæði. Nú er það svo að flest ráðuneytin eru annaðhvort í húsnæði í eigu ríkisins eða með húsnæði í langtímaleigu þannig að menn hlaupa ekkert út úr því á nokkrum mínútum, klukkustundum eða mánuðum.

Það liggur fyrir að ekki á að segja neinum manni upp í tengslum við þessar breytingar, allir yfirmenn sem missa stöður sínar fá boð um önnur störf sem sérfræðingar. Hins vegar er gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að þeir verði svo margir sem hafna því að biðlaunakostnaðurinn verði 200 millj. kr. Síðan vísa menn viðstöðulaust í einhvern vinnuhóp sem pólitískir gæðingar hæstv. forsætisráðherra unnu í, sem heitir viðbragðshópur vegna þeirra vinnu sem rannsóknarnefnd Alþingis fór í, og alla vega miðað við það sem kemur fram í greinargerðinni er fyrst og fremst talað um að það þurfi að stækka ráðuneytin, það sé lausnin.

Virðulegi forseti. Þetta gengur eðli málsins samkvæmt ekki upp. Og það er auðvitað kómískt að menn séu að veifa því hér að þetta snúist um hagræðingu og sparnað. Núverandi ríkisstjórn stoppaði það sérstaklega að sameina stofnanir þrátt fyrir að reiknað hafi verið út að það þýddi gríðarlegan sparnað. Sama ríkisstjórn er búin að koma í veg fyrir verkaskiptingu á milli stofnana þó svo að reiknað hafi verið út að bara á einu svæði á landinu sparaði það rúmlega milljarð, ég held að það hafi verið 1,4 milljarðar á ári. Og sama ríkisstjórn stoppaði það en þykist núna ætla að koma fram með frumvarp sem eigi að leiða til hagræðingar og sparnaðar en sýnir hvergi fram á það. Það litla sem maður getur lesið út úr fjárlagakaflanum í þessu frumvarpi er útgjöld. Síðan er tekið fram að það eigi eftir að skoða þetta allt saman. Hvernig dettur mönnum í hug, virðulegi forseti, að leggja fram frumvarp sem á að leiða af sér hagræðingu og sparnað og upplýsa svo blygðunarlaust að það sé ekkert búið að skoða þetta? Ekki neitt. Það er bara talað um gríðarleg tækifæri, sérstaklega í velferðarmálunum, virðulegi forseti. Menn hljóta að kalla eftir þeim upplýsingum.

Og rökin um skörun milli ráðuneyta, við leysum skörunina ekki með þessu. Halda menn virkilega að það sé ekki skörun á milli heilbrigðisráðuneytisins núna og mennta- og menningarmálaráðuneytisins eins og í forvarnamálum? Það er meira að segja skörun þegar kemur að heilbrigðismálum á milli heilbrigðisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Það er skörun alls staðar og þetta snýst svo um hvernig mönnum gengur að vinna saman því að í ríkisstjórn, eins og annars staðar, þurfa ráðherrar að vinna saman.

Núverandi ríkisstjórn fór að vísu þá leið að taka ákveðinn hluta heilbrigðismálanna, þ.e. hjúkrunarheimilin, og dreifa honum á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins af því að þar var um mikil hrossakaup að ræða á milli hæstv. ráðherra. Þetta leysir það ekki. Ef menn eru þannig innstilltir að fara út í hrossakaup með hjúkrunarheimili munu þeir fara út í hrossakaup með eitthvað annað ef þeir bera ekki meiri virðingu fyrir málaflokknum en svo. (PHB: Allt opið.) Þetta er opinn tékki á alls kyns æfingar.

Virðulegi forseti. Það fylgja engin rök þessu frumvarpi, það hafa engin rök komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra en sagt er að það séu gríðarleg sóknartækifæri í velferðarmálunum, sparnaður og hagræði. Við hljótum að kalla eftir rökum.

Virðulegi forseti. Ég fer fram á það að hv. heilbrigðisnefnd komi saman og ræði þessar tillögur hæstv. forsætisráðherra. Þær hljóta að liggja einhvers staðar. Það er útilokað að hæstv. forsætisráðherra komi hér og tali bara eitthvað út í loftið með þetta. Ég meina, trúir því einhver? Öll umræðan um að við þurfum að vinna betur faglega og undirbúa hlutina betur, halda menn að það sé ekki alveg pottþétt að hæstv. forsætisráðherra sé með eitthvað niðurnjörvað, vel ígrundað, skoðað? Það getur bara ekki annað verið. Við hljótum að kalla eftir því á vettvangi hv. heilbrigðisnefndar að fá öll þessi gríðarlega mörgu tækifæri.

Í þessu plaggi hljóta menn í besta falli að hafa verið að gantast, því að hér er talað um hluti eins og samþættingu velferðarúrræða, t.d. heimahjúkrun og heimaþjónustu. Það er búið að gera það, virðulegi forseti, það næst ekkert fram með breytingu á Stjórnarráðinu, það er búið að gera það og það hefur ekkert með ríkið að gera. Þetta snýst um það að heimahjúkrun er í heilbrigðisráðuneytinu en heimaþjónustan hjá sveitarfélögunum. Ég gekk í það sjálfur að sameina þennan stóra þátt á höfuðborgarsvæðinu sem var hvað erfiðast, það er auðveldara að gera þetta úti á landi. Þetta hefur ekkert með stjórnkerfið að gera, ekki neitt. Sá sem skrifaði þetta er bara ekkert inni í málunum, veit ekki að þetta er búið og veit augljóslega ekki að heimaþjónustan er hjá sveitarfélögunum en ekki í einhverju öðru ráðuneyti en heilbrigðisráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Það hlýtur bara eitthvað að vera hérna sem enginn segir frá. Við skulum ekki ætla það að leyndarhyggjan sé slík hjá hæstv. ríkisstjórn að hún vilji ekki upplýsa þingmenn um hvað menn ætla sér hvað þetta varðar. Hér á ekki að ræða þessa hluti að neinu marki, ef ég skil samkomulagið rétt. Við hljótum því og munum kalla eftir fundi í hv. heilbrigðisnefnd þar sem við förum yfir væntanlega vel ígrundaðar, rökstuddar og faglega unnar hugmyndir hæstv. forsætisráðherra um gríðarlegan sparnað og hagræðingu í velferðarmálum í kjölfar þess að þessi ráðuneyti verða sameinuð.