138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vísa til ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar hér áðan og þeirrar bókunar sem hann las þar upp. Ég vil hér leggja áherslu á og ítreka hversu mikilvægt það er að vanda allar breytingar sem gerðar eru á stofnunum og stjórnsýslu ríkisins. Þetta á ekki hvað síst við um breytingar á ráðuneytum og reyndar er skilyrði að um slíkar breytingar ríki almenn sátt og samstaða og að þær séu unnar á þeim grunni.

Áform um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti í sinni mynd og sameina öðru í eitt atvinnuvegaráðuneyti verður því að vera vel rökstutt og um það almenn samstaða. Hvorugu þessara skilyrða virðist fullnægt um þessar mundir.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin voru sameinuð í eitt ráðuneyti fyrir tveimur árum. Jafnframt áttu sér stað mjög veigamiklir flutningar á verkefnum, Landgræðslan, Skógrækt ríkisins og landbúnaðarskólarnir fluttust frá þessum ráðuneytum en í staðinn komu matvælamálin inn. Þessari sameiningu er í sjálfu sér ekki enn lokið, margt er óunnið og því hefur engin greining farið fram á því hvort t.d. hagræðing hafi hlotist af. Allar tölur um slíkt eru því hugarburður en ljóst er að stofnkostnaður sem hlaust af þessum umskiptum skipti hundruðum milljóna króna.

Eins og áður sagði er þessi sameining í sjálfu sér ekki gengin yfir en mikið álag er á ráðuneytinu og starfsmönnum stofnana þess vegna mikilvægis þessarar atvinnugreinar fyrir endurreisn efnahagslífsins. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu lagðist einnig mjög þungt á atvinnugreinarnar sem, eins og öllum er kunnugt, þurfa að taka á sig mestar fórnir í því ferli. Andstaðan við aðild er hvað sterkust hjá þessum atvinnugreinum og íbúum á landsbyggðinni en hún er auðvitað mikil hjá þjóðinni allri. Margir líta á aðgerðirnar varðandi ráðuneytin sem niðurlagningu á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og flutning stoðkerfa sem hluta af atlögu gegn landsbyggðinni. Fjöldi ályktana sem berast ber þess skýr merki og tortryggni gætir víða gagnvart þessum áformum.

Sjávarútvegurinn er hornsteinn íslensks atvinnulífs og meginuppspretta útflutningstekna okkar og ímyndar. Áform um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, þótt ekki væri nema bara heiti þeirra, eru að mínu mati bein aðför að þeirri ímynd. Danir sem stofnuðu matvælaráðuneytið eru nú auðvitað búnir að breyta því aftur og nú heitir það matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti.

Ég hef tekið mark á þessum afdráttarlausu yfirlýsingum frá landsbyggðinni, félögum mínum í grasrótinni og frá samtökum atvinnugreinanna sem heyra undir þau verkefni sem ráðuneytið er með. Ég hef gagnrýnt vinnubrögð í málinu en mér finnst þau vera unnin ofan frá en ekki neðan frá. Ég hef ekki tekið afstöðu til breytinga á öðrum ráðuneytum enda ekki sett mig efnislega inn í þær en eins og málið liggur nú fyrir hef ég gert grein fyrir því að ég er andsnúinn því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eins og áformin um það eru kynnt í frumvarpinu.

Þó að málið verði nú lagt fram verður það alfarið í meðförum þingsins og á ábyrgð þess og minn skilningur er sá að ekki verði ráðist í neinar breytingar á ráðuneyti eða stofnunum þess eða undirbúning fyrir þær fyrr en lög um það hafa verið samþykkt á Alþingi þannig að það sé á lagalegum grunni unnið.