138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni ætla ég einna helst að bregðast við ræðum þeirra sem hafa farið upp í stólinn á undan mér. Það er alltaf ánægjulegt og skemmtilegt þegar þingmenn í öðrum flokkum hafa fyrir því að lesa stefnu Framsóknarflokksins. Mér hefur hins vegar alltaf fundist hálfeinkennilegt og fyndið þegar þeir fara síðan að túlka eða segja mér sem framsóknarmanni hvað við framsóknarmenn eigum við varðandi stefnu okkar.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kom upp í ræðustól og vitnaði í ákveðnar ályktanir frá Sambandi ungra framsóknarmanna frá árinu 2002. Hann gerði ráð fyrir að við hefðum öll verið í flokknum frá því að við fæddumst en það skal viðurkennast að sú sem hér stendur gekk ekki í flokkinn fyrr en um áramótin 2002/2003 þannig að ég kom ekki að vinnslu þessarar stefnu. Svo virðist vera að hv. þingmaður hafi ekki flett alveg nógu langt fram í tímann því ég sat aftur á móti í nefnd sem kölluð var stjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins og við skiluðum af okkur tillögum og drögum að lagafrumvarpi varðandi breytingar á Stjórnarráðinu árið 2007, þannig að það er aðeins styttra síðan það var. Ég viðurkenni að ég kannast enn þá ágætlega við krógann og ætla að fara í gegnum þær tillögur sem komu fram í skýrslunni.

Meginatriðin í tillögu nefndarinnar eru að við teljum að ríkisstjórnin — við viljum jafnvel ganga enn þá lengra en er gert í þessu frumvarpi — eigi sjálf að skipta með sér verkum en ekki löggjafinn. Í staðinn fyrir að vera í tæknilegum úrlausnarmálum, eins og þetta frumvarp virðist fyrst og fremst snúast um — þar er verið að endurnefna frumvörp og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að þetta hefði verið stundað töluvert frá árinu 2007 — vildum við skipta Stjórnarráðinu í ákveðnar einingar sem miðuðust við skrifstofurnar undir ráðuneytunum. Við vildum horfa á Stjórnarráðið sem ákveðið verkefni og fórum í mikla vinnu við að greina þessar skrifstofur. Við töldum að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að skipta grunneiningum Stjórnarráðsins upp í um 60 skrifstofur.

Tillögur okkur voru að mál sem eðli málsins samkvæmt heyra saman féllu undir sömu skrifstofu og það væri hægt að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta en framkvæmdarvaldið færi fyrst og fremst með það sjálft. Síðan lögðum við til að samsetning, fjöldi og heiti væru ekki bundin í lög heldur ættu raunar forsætisráðherra og ríkisstjórnin sjálf að geta ákveðið það. Forsenda fyrir þessu væri þó að mál sem stangast á heyrðu ekki undir sama ráðherra. Dæmi um þetta, sem var töluvert rætt í nefndinni, var Hafrannsóknastofnun en við töldum líka að það væru ákveðnir örðugleikar varðandi heilbrigðisráðuneytið sem bæði veitti þjónustu og keypti hana, að það stangaðist á. Varðandi sjávarútvegsráðuneytið töldum við — við horfðum á einingarnar og stofnanir þar undir — að þar sem sjávarútvegsráðherra er falið að ákvarða heildarmagn af aflaheimildum væri í hæsta máta óeðlilegt að þar undir væri líka sú stofnun sem á að stunda umhverfisrannsóknir og leggur til ákveðnar tillögur um hvað sé veitt og hvað samrýmist stofnstærðinni. Ýmsir innan hópsins töldu að hægt væri að færa Hafrannsóknastofnun undir umhverfisráðherra. Forsætisráðherra ætti alla jafna ekki að fara með önnur mál en æðstu yfirstjórn og ég held að það sé komin nokkuð mikil sátt um það milli allra stjórnmálaflokka.

Við töldum líka í ljósi ákveðinnar reynslu sem við upplifðum sem flokkur að það ætti að vera hægt að skipa aðstoðarráðherra. Sérstaklega væri mikilvægt að það væri hægt að skipa aðstoðarutanríkisráðherra í ljósi þess að utanríkisráðherra er oft mjög mikið erlendis. Það hefði skapast ákveðin hefð fyrir því að formenn stjórnarflokka skiptu með sér annars vegar forsætisráðuneytinu og hins vegar utanríkisráðuneytinu og það gerði að verkum að mjög erfitt væri fyrir formann flokks að vera bæði utanríkisráðherra og á sama tíma formaður stjórnmálaflokks, eins og ég held að Samfylkingin hafi fengið að upplifa eins og við.

Við ítrekuðum líka í niðurstöðum nefndarinnar að það væri mjög mikilvægt að ráðherrar sætu ekki á þingi meðan þeir gegna ráðherraembætti, þannig að það væri klippt enn frekar þar á milli. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur flutt þessa tillögu nokkrum sinnum og ég hef verið meðflutningsmaður með henni alla vega á tveimur þingum. Til að okkar tillaga geti gengið eftir er gert ráð fyrir breytingum á stjórnarskrá en núna hefur komið fram tillaga frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um að hugsanlega væri hægt að breyta þingsköpum. Að mínu mati er alger forsenda fyrir því að hægt væri að samþykkja slíkt að því væri lofað að lagt yrði til við stjórnlagaþingið að þeir legðu áherslu á að ráðherrar færu af þingi og það yrði sett í stjórnarskrá.

Þeir kostir sem við sáum við þessar breytingar eru að horft yrði á grunneiningarnar og ekki væri verið að róta í verkefnunum sjálfum heldur héldust þau alltaf í sömu einingu og þar með væri ekki dregið úr sérþekkingu embættismannakerfisins og stöðugleika. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt, og það kemur einmitt fram í skýrslu Gunnars Helga Kristinssonar og hóps hans sem fór sérstaklega í gegnum athugasemdina um stjórnsýsluna í framhaldi af rannsóknarnefndarskýrslunni, að styrkja pólitíska forustu í Stjórnarráðinu. Við höfum náð þeim áhugaverða og að mínu mati ótrúlega — það er svo sem ekkert til að monta sig af — áfanga að vera bæði með veika pólitíska stjórnsýslu og veika faglega stjórnsýslu. Maður hefði haldið að það ætti að vera annaðhvort eða en við höfum náð þeim merka áfanga að takast að búa til hvort tveggja í íslensku stjórnsýslunni.

Við lögðum síðan fram frumvarp, tillögu að drögum að breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, og bentum á að það hefðu raunar mjög litlar breytingar orðið á þessu frumvarpi frá því að það var fyrst skrifað fyrir rúmum 40 árum. Eitt sem ég vil nefna sérstaklega er að við töldum að það ætti að vera hægt að skipa ráðherra utan ráðuneytis. Mig minnir að það sé þannig í Danmörku og ég held jafnvel í Svíþjóð líka. Þeir hafa að vísu kannski verið með aðstoðarráðherra. En ástæðan fyrir þessu er að það geta komið upp ákveðin málefni þar sem mikilvægt er að samræma aðgerðir tveggja, þriggja eða fjögurra ráðuneyta. Þá er einhver fenginn í ákveðið átaksverkefni, sérverkefni, og ráðinn tímabundið — þá væntanlega án auglýsingar — til að vera ráðherra án ráðuneytis og sinna því verkefni. Þegar því er lokið hættir viðkomandi sem ráðherra. Enn í dag, þremur árum síðar, eru þetta mjög róttækar hugmyndir. Ég geri athugasemdir við þetta frumvarp sem fram er komið, fyrst og fremst af því að mér finnst það ekki ganga nógu langt. Mér finnst vinstri flokkarnir því miður ekki vera nógu róttækir. Það er mat fyrrverandi ungs framsóknarmanns.

Ég vil líka taka fram að ég hef að meginhluta til ekki athugasemdir við breytingarnar á ráðuneytunum, verkskipulaginu, nema hvað varðar hugmyndir um atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Í nefndinni talaði ég mikið um að skoða hvernig þetta hefði verið gert í Danmörku, að búa til sérstakt matvælaráðuneyti. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef lengi barist fyrir því, sérstaklega innan sjávarútvegsins, að menn tali um sig sem matvælaframleiðendur. Við höfum allt of mikið einblínt á að vera hráefnisframleiðendur en ekki gert okkur nógu vel grein fyrir því að sjávarútvegur og landbúnaður framleiða matvæli fyrir fólk og dýr. Ég tel að vel væri hægt að stofna níu ráðuneyti, eins og lagt er til hér, og eitt af þeim yrði þá matvælaráðuneyti sem færi með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, sem og hollustuvernd. Ákveðnir þættir sem eru undir Umhverfisstofnun núna færu undir þetta ráðuneyti en umhverfis- og auðlindaráðuneytið fengi í staðinn Hafrannsóknastofnun sem fer með rannsóknir og okkar stærstu auðlind sem er sjávarútvegurinn.

Ég tel líka mjög mikilvægt að farið verði í þessar breytingar á innanríkisráðuneytinu og mér finnst það mjög spennandi. Í nótt, um tvöleytið held ég, fórum við eins og „Speedy Gonzales“ í gegnum breytingar á varnarmálalögunum. Þar talaði ég sérstaklega fyrir því að beðið yrði með að fara í þessar tæknilegu breytingar, að leggja niður Varnarmálastofnun, þar til búið væri að stofna ráðuneyti sem tæki við málaflokknum varnar- og öryggismál. Ég veit að menn hafa séð fyrir sér að málaflokkurinn fari undir innanríkisráðuneytið en ég benti líka á að það væri áhugavert í ljósi þess sem hefur verið að gerast á Norðurlöndunum að þessi málaflokkur færi undir forsætisráðuneytið. Það er reyndar ekki alveg í anda þess sem ég lagði til á sínum tíma um að forsætisráðuneytið færi fyrst og fremst með yfirstjórn annarra ráðuneyta.

Síðan ætla ég líka aðeins að fá að bregðast við því sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir talaði um í andsvörum við hv. þm. Bjarna Benediktsson en það var þessi eilífðarspurning um hvað sé samráð og hvað sé samvinna. Mig langar til að vitna í erindi eftir Gunnar Helga Kristinsson, sem er að mörgu leyti uppáhaldsfræðimaðurinn minn sem ég vitna í. Hann hefur lengi stúderað íslenska stjórnkerfið og komið fram með mjög áhugaverðar pælingar þótt ég sé ekki alltaf endilega sammála honum. (Gripið fram í.) Hann bendir á að það þurfi að skilgreina samráð og vill skilgreina þrjár tegundir af samráði. Það er í fyrsta lagi samráð sem er í rauninni aðallega kynning. Síðan er samráð sem hann vill kalla samstarf. Í staðinn fyrir að leggja fram fyrir fram mótaðar lausnir hafa þeir sem menn ætla sér að eiga samráð við raunverulegt tækifæri til að hafa áhrif á mikilvæg atriði. Þriðja tegund samráðs er raunar það víðtækasta og í því felst valdaafsal á afmörkuðu sviði. Við í stjórn og stjórnarandstöðu tuðum mikið fram og til baka um skilgreiningu á því hvað þetta blessaða samráð og samvinna er innan þingsins og ég held að ég geti sagt að þetta mál flokkist undir samráð af þeirri tegund sem telst kynning. Það er búið að kynna málið fyrir okkur og það er mikil pressa á að klára það en þetta er alls ekki samstarf og þaðan af síður valdaafsal. Ég ætla ekki að vera svo bjartsýn að fara fram á að stjórnarflokkarnir fari í einhvers konar valdaafsal gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni en það væri hins vegar ágætt að reyna að fara í samstarf, þannig að við höfum aðeins meira um það að segja áður en málið er kýlt inn í þingið og síðan dregið út úr nefndum, stundum með gráti og gnístran tanna.