138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er mikið fagnaðarefni að nú stendur loks til að fara að gömlu baráttumáli Vinstri grænna og raunar sjónarmiðum sem eru eldri á vinstri vængnum en tilvist þess flokks. Þar er um að ræða styrkingu og eflingu umhverfisráðuneytisins.

Í ágætu riti sem heitir Græn framtíð er m.a. fjallað um stjórnsýslu umhverfismála og segir þar, með leyfi forseta:

„Úrelt skipan mála innan Stjórnarráðsins má ekki lengur standa í vegi fyrir nauðsynlegum áherslubreytingum hvað snertir fjármagn og tilfærslu verkefna milli ráðuneyta. Jafnhliða mikilli eflingu umhverfisráðuneytisins þarf að huga að tilfærslu verkefna milli annarra ráðuneyta og hugsanlegri fækkun þeirra, meðal annars með uppbyggingu eins atvinnuvegaráðuneytis.“

Fyrr í þessum kafla kemur fram að mikilvægt sé að auðlindamálin verði samhliða umhverfismálunum í stjórnsýslunni. En af hverju er það? Í raun og veru er um að ræða afar mikilvæga kerfisbreytingu í þágu sjálfbærrar þróunar. Það er nefnilega grundvallarþáttur í velferð þjóðarinnar til lengri framtíðar að rannsóknir á auðlindunum og ráðgjöf um nýtingu þeirra séu í ákveðnu skjóli frá nýtingarsjónarmiðum. Þannig eru áformin um umhverfis- og auðlindaráðuneyti ekki aðeins spurning um hagræðingu, heldur ekki síður ákveðin framtíðarsýn og stefnumörkun fyrir Ísland.

Það er, frú forseti, afar mikilvægt að ræða þetta mál sem við erum að fjalla um út frá málefnalegum forsendum en ekki í yfirlýsinga- og kreddustíl sem tengir hvaðeina við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er afar mikilvægt að umræðan sé upplýst, ekki síst vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem hvílir á þinginu við úrvinnslu þessa frumvarps. Úrvinnslan verður að vera í þágu þeirra markmiða sem við setjum okkur. Þar er um að ræða fjárhagsleg markmið, hagræðingarmarkmið, sem hér hafa verið rædd allnokkuð. Við höfum líka rætt stjórnsýsluleg markmið og þar má m.a. nefna þá staðreynd að Stjórnarráðið verður öflugra þar sem samlegðaráhrif verða mikil og styrkari einingar tryggja traustari faglegan grunn að stefnumótun og ákvarðanatöku í hverju ráðuneyti fyrir sig.

Markmiðin eru líka pólitísk og snúast um framtíðarsýn fyrir Ísland. Mikilvægast er þó að við freistumst ekki til þess að verða svo sjálfhverf í tíma og rúmi að gleyma því að Stjórnarráðinu er ætlað að tryggja lýðræði, gagnsæi og skilvirkni. Sú grundvallarsýn og grundvallarskylda sem hvílir á okkur þegar við erum að fjalla um þessi mál má ekki kafna í tímabundnum hagsmunum einstaklinga, atvinnugreina eða annarra aðila. Af því tilefni er rétt að nefna að áskoranir og ályktanir margumræddra hagsmunasamtaka og samráðsaðila koma allar frá þeim sem hafa með nýtingu náttúrunnar að gera. Þau hagsmunasamtök og þeir talsmenn sem hafa með hagsmuni náttúrunnar og sjálfbærrar þróunar að gera hafa ekki verið nefnd í þessari umræðu. Það eru þau samtök sem taka sér stöðu með sjálfbærri þróun, með náttúrunni til langrar framtíðar þannig að við getum nýtt hana til hagsbóta fyrir samfélagið til langs tíma en ekki skamms.

Umfjöllunin í nefndinni fram undan er auðvitað til þess fallin að vinna málið opið og af krafti og ég fagna þeim þingmönnum sem hér hafa fjallað um málið af ábyrgð og á efnislegum nótum eins og fyrrverandi ungur framsóknarmaður eins og hún kallaði sjálfa sig, hv. þm. Eygló Harðardóttir. Það hvílir mikil skylda á þinginu að rýna frumvarpið í hörgul og við verðum, eins og ég nefndi áðan, að taka það hlutverk okkar alvarlega til að breytingarnar verði til góðs og þinginu til sóma. Ég heyri á málflutningi téðs fyrrverandi ungs framsóknarmanns að sjónarmið okkar fara býsna víða saman í þeim efnum. Ég nefni það þess vegna sérstaklega til umhugsunar og tek undir þau orð hennar hvort við séum hér í raun að taka of lítið skref, hvort við séum ekki nógu róttæk. Eins og kunnugt er og hér hefur aðeins verið fjallað um er á Norðurlöndunum ekki kveðið á um verkaskiptingu framkvæmdarvaldsins með lögum eins og hér er gert, heldur er kerfið sveigjanlegt þannig að framkvæmdarvaldið getur skipt með sér verkum eftir því sem þurfa þykir hverju sinni eftir verkefnum. Sú leið er opnari, hún er sveigjanlegri, nútímalegri og kemur mun betur til móts við fjölbreytt hlutverk og síbreytilegt samfélag en það kerfi sem við búum nú við hér á landi.

Frú forseti. Ég hef miklar væntingar til framgangs þessa máls í þinginu og heyri mér til ánægju af málflutningi ýmissa stjórnarandstæðinga að það eru miklar líkur á því að hér takist farsæl uppstokkun Stjórnarráðsins Íslandi til heilla.