138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna framkomu þessa máls. Ég tel að það sé í heildina frekar jákvætt. Ég vil líka aðeins rekja stefnu Framsóknarflokksins í þessu máli af því að við höfum skoðað frekar lengi hvernig hægt er að bæta Stjórnarráðið, hvernig má einmitt breyta skipan ráðuneyta til að vera meira í takt við tímann. Þetta er verkefni sem hefur verið lengi á okkar borðum.

Við ályktuðum á síðasta flokksþingi mjög skýrt um að við viljum skýrari verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Við viljum líka taka tillit til samfélags- og atvinnuhátta og við viljum fara eftir tillögum nefndar Framsóknarflokksins um skipan Stjórnarráðsins. Það er búið að tipla aðeins á þeim tillögum en þær eru mjög skýrar.

Við sögðum líka að við vildum að ráðuneytin yrðu ekki fleiri en 10. Við viljum fækka ráðuneytum. Við vildum líka að breytingar á Stjórnarráðinu yrðu skoðaðar á stjórnlagaþingi, enda er það eðlilegur vettvangur þegar það verður haldið. Stefna okkar er mjög skýr, við viljum fækka ráðuneytum og við viljum fara eftir tillögum þeirrar nefndar sem hefur unnið þetta mál fyrir okkur innan flokksins og sú stefna er skýr. Mig langar aðeins að rekja hana líka.

Sú er hér stendur gæti brugðið á það ráð að fara í gömlu skotgrafirnar og halda sig í þeim. Það er mjög auðvelt að gagnrýna þetta frumvarp ef maður vill það. Það er auðvelt að segja að þetta komi seint fram, allt of lítið samráð hafi verið haft við aðra flokka um skipan þessara mála. Vinstri grænir eru klofnir í þessu máli. Hér er búið að lesa upp bókun frá þingflokki þeirra þannig að það er hægt að leggjast ofan í þessar skotgrafir. Það er mjög auðvelt. Sú er hér stendur ætlar ekki að gera það. Ég tel að við séum á þeim tímapunkti í samfélagi okkar að sá tími sé liðinn að við getum leyft okkur það. Nú eigum við að kalla eftir nýjum vinnubrögðum og sýna þau í verki. Þess vegna á maður að halda sig við það að tala jákvætt fyrir góðum málum ef maður hefur þá trú að málin séu góð og líka að reyna að halda sig þokkalega við stefnu sinna flokka, sérstaklega ef það fer eftir sannfæringu þeirra sem eru kjörnir á þing. Í þessu máli fer það saman, sannfæring mín er að það sé rétt að endurskoða Stjórnarráðið og það er líka stefna Framsóknarflokksins þannig að þetta fer saman. Hér mun ég sýna sanngirni, hafa réttlæti að leiðarljósi og sýna hógværð. Það held ég að sé það sem við þurfum að gera almennt núna á Alþingi Íslendinga, bæði vegna aðstæðna og líka til að auka hér traust og vera sanngjörn almennt.

Ég ætla að fara í smáættfræði, virðulegur forseti. Á flokksþingi 2005 var samþykkt að fara í að endurskipuleggja Stjórnarráðið, fækka ráðuneytum o.s.frv. Við ákváðum að setja á laggirnar sérstakan málefnahóp til að gera það. Það var gert. Í kjölfarið var skipaður málefnahópur. Fyrsti formaðurinn var þar um tíma Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir lögfræðingur. Hún varð síðan frá að hverfa vegna annarra starfa og þá tók við Gísli Tryggvason. Í nefndinni voru tveir fulltrúar úr hverju kjördæmi og svo var líka fulltrúi í svokallaðri stjórnarskrárnefnd. Það var farið mjög vel yfir þessi mál öll saman.

Í skýrslunni er líka vitnað í stefnu Sambands ungra framsóknarmanna. Ég vil aðeins tilgreina þá stefnu vegna þess að Samband ungra framsóknarmanna hefur líka skoðað þessi mál um langt skeið. Þar kemur fram að Samband ungra framsóknarmanna gerði skýrslu sem heitir Umbætur á Stjórnarráðinu árið 2007. Þá var formaður Sambands ungra framsóknarmanna Dagný Jónsdóttir. Þar kemur ýmislegt fram. Þar segir orðrétt, virðulegur forseti:

„Í dag [er ráðuneytum] sem fara með atvinnumál skipt eftir einstökum atvinnuvegum. Þannig fer sjávarútvegsráðuneytið með málefni útgerðar og fiskvinnslu, landbúnaðarráðuneyti fer með málefni landbúnaðarins, samgönguráðuneytið fer með málefni ferðaþjónustu og samgöngufyrirtækja, viðskiptaráðuneytið með málefni fjármagnsmarkaðarins og iðnaðarráðuneytið með málefni iðnaðar og orkugeirans.“

Hér er farið yfir hvernig þessi ráðuneyti eru. Nú ætla ég að hefja aftur tilvitnun beint í ályktun ungra framsóknarmanna:

„Þessi skipan er barn síns tíma þegar það tíðkaðist að ríkisvaldið gripi til sértækra aðgerða ríkisvaldsins til að vernda tilteknar atvinnugreinar. Þessi skipan á hins vegar illa við þegar leitast er við að móta almenna atvinnustefnu þar sem ekki á að hygla hagsmunum tiltekinnar atvinnugreinar framar annarri.“

Mér finnst þetta þess virði að fara nokkuð náið yfir þetta hér, virðulegur forseti, af því að Samband ungra framsóknarmanna sem skoðaði þetta segir að núverandi fyrirkomulag sé — hvað? Barn síns tíma. Það er rétt, virðulegur forseti. Þetta er barn síns tíma. Þetta verðum við að endurskoða og laga. Framsóknarmenn skoðuðu þetta í nefndinni og ég er hér að fara yfir skýrslu hennar, stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins. Gísli Tryggvason, formaður nefndarinnar, skoðaði sérstaklega skipan Stjórnarráðsins, gerði það þegar hann var í laganámi í Háskóla Íslands, fór þar í nýsköpunarsjóðsverkefni og skoðaði sérstaklega þessi atriði með skipan Stjórnarráðsins. Hann hafði mjög mikil áhrif á nefndarstarfið þegar hann tók við því. Síðan skilaði nefndin af sér skýrslu og þar var sérstaklega tilgreint, virðulegur forseti:

„Mikil samstaða náðist um niðurstöðuna í nefndinni.“

Í flokksstarfinu okkar náði fólk úr öllum kjördæmum, tveir úr hverju kjördæmi, formaður og einn úr stjórnarráðsnefnd, niðurstöðu og það var mikil samstaða. Hver er niðurstaðan sem Framsóknarflokkurinn ætlar að fara eftir? Hún er svona, virðulegur forseti:

„Meginatriði í tillögum nefndarinnar eru eftirfarandi:

Áréttað er að ríkisstjórn skiptir sjálf með sér verkum en ekki löggjafinn.

Grunneiningar Stjórnarráðsins verði um 60 skrifstofur.

Mál, sem eðli máls samkvæmt heyra saman, falla undir sömu skrifstofu.

Unnt verður að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta.

Samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta eru ekki bundin í lögum.

Illsamrýmanleg mál eiga ekki að heyra undir sama ráðherra.

Forsætisráðherra fer að jafnaði ekki með önnur málefni en æðstu yfirstjórn.

Áréttuð er heimild til þess að skipa ráðherra án ráðuneytis.

Bætt er við heimild til þess að skipa aðstoðarutanríkisráðherra.

Ráðherrar sitja ekki á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti.“ — Ég skýt því hér inn í að sú er hér stendur hefur einmitt flutt mál af þessu tagi hér.

„Ekki er dregið úr sérþekkingu embættismannakerfisins og stöðugleika.

Pólitísk forusta í Stjórnarráðinu gagnvart embættismannakerfi er stórefld.“

Þetta eru punktarnir. Þetta eru framsóknarmenn sammála um að gera og áréttuðu það á sínu síðasta flokksþingi sem var fyrir ári, eftir hrun.

Ég vil líka tilgreina af því að ég var að vitna í ályktanir frá Sambandi ungra framsóknarmanna á sínum tíma að ungir framsóknarmenn hafa einnig ályktað síðar, bæði 2008 og 2009. Það eru nýjustu ályktanirnar og þar ítreka ungir framsóknarmenn að það eigi að fækka ráðuneytum. Ég ætla ekki að lesa það upp vegna tímaskorts, virðulegur forseti.

Ég vil líka segja af því að sú er hér stendur talar jákvætt um þetta mál, eins og heyra má, að það er mjög mikilvægt núna, eftir bankahrunið, að við reynum að koma málum þannig fyrir að almenningur styðji stjórnvöld í þeirri viðleitni að spara og hagræða. Það er þörf á því. Þá er rétt að topparnir byrji líka á sjálfum sér, þ.e. að Stjórnarráðið byrji á sjálfu sér við að fækka ráðuneytum og sameina. Þetta mál er þess eðlis. Það er verið að gera það. Það er mjög erfitt fyrir stjórnvöld ef þau gera ekkert hjá sjálfum sér að fara til undirstofnana og segja: Nú verðið þið að sameinast. Það þarf að sameina og hagræða í ljósi kreppunnar sem hér er. Það er miklu erfiðara að gera það ef menn byrja ekkert á sjálfum sér. Ég held að í heildarsamhengi sé líka rétt einmitt núna að byrja á því að endurskipuleggja Stjórnarráðið.

Eins og hér hefur komið fram er þessi stefna skref í áttina og hún er í anda þess sem framsóknarmenn hafa talað um lengi en við viljum taka þetta lengra. Við viljum að þetta sé ekki bundið í lög og þá þarf ekki að taka alltaf svona mál hérna inn, taka einn og einn ráðherra af lífi eins og tíðkast að segja á mannamáli. Það er erfitt og það blasir bara við. Af hverju kom þessi bókun frá hluta þingflokks Vinstri grænna? Það er m.a., ekki eina ástæðan, af því að einn hæstv. ráðherra úr þeirra hópi liggur svolítið undir. Það er erfitt þegar á að gera þetta með lögum og því væri rétt að taka málið alla leið og koma því þannig fyrir að ríkisstjórn hvers tíma gæti gert svona breytingar án þess að fara með þær inn í lagasetningarvaldið í hvert skipti. Þannig er þetta gert á Norðurlöndunum, miklu meiri sveigjanleiki og hægt að vera með miklu eðlilegri áherslu miðað við þann takt sem er í samfélaginu á hverjum tíma. Þetta þýðir ekki það sama og upplausnarástand, alls ekki. Það verða áfram grunneiningar, svokallaðar skrifstofur, sem menn geta svo flokkað eftir því hvernig samfélagsskipanin þróast. Að okkar mati er ekki eðlilegt að taka þetta alltaf inn til lagasetningar í hvert skipti af því að það er mjög erfitt að gera svona hluti nema þeir séu gerðir bara við stjórnarskipti. Það er svo erfitt að fækka ráðuneytum, það er svo erfitt að taka ráðherra frá nema við stjórnarskipti. Það er erfitt að taka menn út af og það þekkja menn, og það þekkir líka sú er hér stendur. Það þurfti að taka ráðherra út af á sínum tíma hjá okkur. Það var vegna þess að það samdist þannig á milli flokka að við ákveðna tímasetningu, 15. september, færðist eitt ráðuneyti frá öðrum flokknum yfir til hins. Þetta var allt mjög erfitt. Það er sama eðlis þegar menn fækka ráðuneytum.

Ég er í heildina séð jákvæð fyrir þessu máli. Þetta er skref í rétta átt. Ég vil sýna sanngirni, ég vil líka reyna að koma til móts við þær raddir í samfélaginu sem segja að við eigum ekki að vera í skotgröfum. Ef málin eru góð er talað jákvætt um þau. Við eigum ekki að draga kjarkinn hvert úr öðru hérna heldur styðja góð mál. Þetta mál er í anda Framsóknarflokksins. Við hefðum samt viljað ganga lengra. Þetta er skref í rétta átt þannig að ég ber talsverða virðingu fyrir því að við erum komin með þetta mál inn. Ég er samt ekki að segja að þetta þurfi ekki að skoðast vel hérna inni en ég er sammála stefnunni um að eðlilegra væri að taka stærra skref.

Vera má að nefndin sem mun fjalla um þetta mál geti skoðað tillögur framsóknarmanna. Ef ekki er auðvitað hugsanlegt að menn flytji hér breytingartillögur, þeir sem eru á þeirri skoðun. Sú er hér stendur er á þeirri skoðun að best væri að nefndin skoðaði þetta. Að öðrum kosti getur vel verið að menn flytji breytingartillögur til að ganga enn lengra. Þetta er þó a.m.k. jákvætt skref í rétta átt, virðulegur forseti.