138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um breytingar á Stjórnarráði Íslands.

Ég vil byrja á því að taka undir allt það er kom fram í bókun hv. þm. Atla Gíslasonar fyrr í dag í umræðunni þar sem hann fór yfir þær athugasemdir sem nokkrir þingmenn Vinstri grænna höfðu þegar kom að afgreiðslu þessa máls. Þessar athugasemdir sneru einkum að vinnulagi, samráði við undirbúning, gríðarlegri andstöðu grasrótar Vinstri grænna, hagsmunasamtaka, sveitarfélaga og fleiri aðila er þessu tengjast, Evrópusambandsumsókn og fleiri þáttum.

Ég ætla að byrja á því er tengist Evrópusambandsumsókninni og áhyggjum manna er lúta að henni. Það er alveg ljóst að mörg þessi samtök sem hafa ályktað um þessi mál hafa lýst yfir miklum áhyggjum af því ferli sem nú er farið í gang og snýr fremur að aðlögun að regluverki Evópusambandsins en einhvers konar aðildarviðræðum. Ég deili þessum sjónarmiðum, ég hef miklar áhyggjur, ekki bara af ístöðuleysi ríkisstjórnarinnar heldur líka Alþingis alls í þessu máli. Ég held að þarna séum við að fara inn á braut sem verður gríðarlega erfitt og þarf gríðarleg átök til þess að ná okkur út af. Það verður erfitt að koma að réttum sjónarmiðum og halda vel á hagsmunum þessara tveggja grunnatvinnugreina í þessu ferli.

Margir hafa talað um að með því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í núverandi mynd muni stjórnsýsluleg staða þessara atvinnugreina veikjast. Ég hef sagt það í þingflokki mínum og hvarvetna að óháð því hvað fólki finnst um stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis sé það ekki skynsamleg tímasetning nú þegar við erum í miðjum þessum Evrópusambandsviðræðum. Við skulum byrja á því að slá þær út af borðinu og svo skulum við ráðast í þessar breytingar því að það er ljóst að mikil andstaða er við Evrópusambandsumsókn í þessum atvinnugreinum og mönnum finnst það nóg sem fram undan er varðandi hana.

Margir telja að þeir sem hafa haft þessar efasemdir séu alfarið á móti niðurskurði eða hagræðingu, jafnvel alfarið á móti allri sameiningu eða breytingum á Íslandi. Það er af og frá. Það má hagræða með ýmsum hætti. Það sem mestu skiptir þegar ráðist er í breytingar á stjórnarráði er að það sé gert á faglegan hátt og að allur undirbúningur að slíku sé sem bestur.

Hv. þm. Atli Gíslason var hér áðan með handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Þar er fjallað um hvernig standa á að slíkum lagasetningum. Í fyrsta lagi er spurning hvort ný lagasetning er nauðsynleg. Þá er hafist handa við að semja frumvarp. Þegar frumvarpið er samið er mikilvægt að hafa samráð, í fyrsta lagi pólitískt samráð, síðan faglegt samráð milli ráðuneyta, samráð við hagsmunaaðila og almenning, mat á áhrifum, afleiðingar fyrir hagsmunaaðila og fleiri. Þetta eru þættir sem eiga að liggja fyrir og á að taka tillit til við vinnslu slíkra frumvarpa.

Við inntum ítrekað eftir því við afgreiðslu í þingflokki Vinstri grænna hvort slík vinna hefði farið fram, til að mynda er varðar sjávarútveg og landbúnað, heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfið. Við lögðum til að sú vinna sem þegar hefði farið fram í forsætisráðuneytinu yrði kynnt fyrir þingheimi og að fram færi vinna utan þings í sumar.

Hér hafa komið upp mörg sjónarmið. Ég nefni til að mynda sjónarmið hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem hún viðraði hér, sem hafa verið innan Framsóknarflokksins. Fleiri hafa komið inn á sjónarmið er þessu tengjast, hvort ákveðin verkefni eigi heima í þessu ráðuneyti eða öðru. Vinstri grænir hafa ávallt talað fyrir því, áður en þeir komust í ríkisstjórn, að slíkt skyldi unnið í samráði allra flokka. Á meðan Stjórnarráðið er eins og bundið er í lögum skyldu breytingar á því vera í samráði við alla flokka.

Við inntum eftir því hvort slíkt samráð hefði farið fram. Nei, þetta frumvarp birtist fullbúið í þingflokki Vinstri grænna og ekki var nokkur vilji til þess af hálfu forsætisráðherra að fara með málið í þann farveg að hægt væri að ná meiri sátt um málið, það væri unnið í þeim farvegi sem lagt er upp með hér. Það var algjörlega af og frá að það væri mögulegt. Því er málið komið í þennan farveg og ég tek undir með þeim sem hér hafa talað, að það sé ekki heppilegt að vinna þetta með þessum hætti.

Ég kalla hins vegar eftir því núna, hér hafa margir tekið til máls. Ég nefni til að mynda eldhúsdagsumræður sem voru hér fyrir tveim dögum og var talað um breytt vinnubrögð hér á Alþingi, um aukið samráð og aukið þingræði, aukinn aðskilnað milli framkvæmdarvalds og Alþingis. Ég kalla eftir því að við áframhaldandi vinnslu á þessu stjórnarráðsfrumvarpi verði tryggt að samráðið eigi sér stað, þetta verði ekki sýndarmennska ein. Mín tilfinning er sú eftir að hafa fylgst með aðdraganda þessa máls, hvernig því hefur verið þrýst áfram og engin leið að taka út breytingar er varða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, að samráðið verði bara sýndarmennska. Það er náttúrlega ekki jákvætt fyrir þá sem talað hafa hér um að þeir vilji breytingar og hugsanlega matvælaráðuneyti og annað því um líkt.

Ef ég hef rangt fyrir mér hvað þetta snertir skora ég á þingheim og ríkisstjórnina að tryggja að það samráð sem verið er að boða verði ekki einungis í orði, það verði líka á borði. Það er gríðarlega mikilvægt þegar við erum að fara inn í þetta viðræðuferli eða aðlögunarferli við Evrópusambandið, sérstaklega fyrir þessar grunnatvinnugreinar, sjávarútveginn og landbúnaðinn, að hugað sé að stöðu þessara atvinnugreina og haft samráð við þær. Það sama á að sjálfsögðu við um aðrar ráðuneytisbreytingar er koma fram í þessu frumvarpi.

Ég vil enn og aftur skora á þingheim og ríkisstjórn að tryggja það að þetta samráð verði ekki eingöngu í orði, það verði líka á borði.