138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

663. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til þess að mæla fyrir þessu máli hér því að í því sameinast mjög mörg atriði sem mikilvægt er að huga að og ákaflega brýnt, en jafnframt sú tegund af stjórnmálum sem ég held að mér sé óhætt að segja að hefur verið vöntun á. Nafnið gefur það til líka kynna, þetta er tillaga til þingsályktunar um samvinnuráð um þjóðarsátt. Ég ætla, frú forseti, að fá að byrja á því að lesa hér upp tillöguna sjálfa áður en ég geri nánar grein fyrir því í hverju hún felst.

Hún er lögð fram af öllum þingmönnum Framsóknarflokksins og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að koma á fót samvinnuráði, vettvangi stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila, til að ræða og leita leiða í anda þjóðarsáttar til langtímastyrkingar atvinnuvega landsins og efnahags þjóðarinnar til frambúðar. Í ráðinu sitji fulltrúar allra þingflokka, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands. Ráðið leggi tillögur fyrir forsætisráðherra eigi síðar en 31. desember 2010 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög ef þörf krefur. Markmið ráðsins verði eftirfarandi:

1. Almenn skuldaleiðrétting, með jafnræði, réttlæti og hagkvæmni að leiðarljósi, sem gagnist öllum.

2. Lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands.

3. Trygging stöðugs verðlags.

4. Atvinnuskapandi framkvæmdir.

5. Jöfnun áhættu í skiptum lánveitenda og lántaka.

6. Stytting fyrningarfresta krafna eftir gjaldþrot.

7. Jöfnun samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.

8. Sköpun stöðugleika og festu í rekstri ríkisins.

9. Gerð langtímaáætlana um útgjöld ríkisins.

10. Endurskipulagning ríkisfjármála og endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Áður en ég fer nánar í þessi atriði er kannski rétt að nefna hvernig þessi tillaga er til komin. Hún á að nokkru leyti rætur að rekja aftur til myndunar minnihlutastjórnarinnar í fyrra sem starfaði í skamman tíma og var falið ákveðið verkefni sem því miður var ekki framkvæmt af ýmsum ástæðum. Á þeim tíma lögðu þingmenn Framsóknarflokksins fram tillögur að því hvernig ná mætti þeim árangri sem ríkisstjórninni hafði verið falið að ná, m.a. varðandi skuldastöðu heimila. Þær tillögur voru lagðar fram vegna þess að það höfðu ekki komið tillögur frá stjórninni sjálfri. Við höfðum kynnt þeim það strax í upphafi að kæmi stjórnin ekki með tillögur mundum við, sem á þessum tíma vörðum þessa minnihlutastjórn, koma með slíkar tillögur. Þeim var hins vegar ekki vel tekið af flestum stjórnarliðum, því miður, en á því voru þó undantekningar. Nokkrir ráðherrar eyddu alveg ótrúlega miklum kröftum í að reyna að kveða þetta í kútinn, sérstaklega tillögur um almenna skuldaleiðréttingu. Tillögurnar voru raunar miklu fleiri og náðu yfir ýmis svið. Það varð lítið úr þessu. Svo voru þessar tillögur unnar áfram og aftur skiluðum við efnahagstillögum og núna nýverið líka þessari tillögu um þjóðarsátt sem gengur út á að menn sammælist um að ráðast beri í fáein afmörkuð verkefni, verkefni sem við framsóknarmenn töldum að nánast allir gætu verið sammála um að ráðast þyrfti í, þau brýnu verkefni sem átti raunar að ráðast í strax þarna í febrúarmánuði 2009 en eru þó ekki síður brýn núna.

Svoleiðis leggjum við til að í stað þess að við útfærum tillögurnar nákvæmlega fyrir fram komi fulltrúar allra flokka og fleiri að því borði og menn útfæri tillögurnar saman þannig að allir eigi eitthvað í þeim.

Þetta er t.d. mikilvægt í fyrsta atriðinu varðandi skuldaleiðréttingu vegna þess að það sem við fundum svo mikið fyrir á sínum tíma var að hún var gagnrýnd að því er okkur fannst fyrst og fremst vegna þess að hún kom frá öðrum flokki. Gagnrýnin snerist öll um smáatriðin í útfærslunni þótt þau hafi síðan reynst ágæt þegar fram liðu stundir, en gagnrýnin var látin snúast um útfærsluna í stað þess að ræða aðrar leiðir.

Því segi ég núna: Sammælumst um það, fulltrúar allra flokka, að það þurfi almennar aðgerðir í skuldamálum. Sem betur fer erum við nú búin að heyra þingmenn úr öllum flokkum taka undir þessi sjónarmið, loksins.

Hv. þm. Helgi Hjörvar tók undir þessi sjónarmið nýverið með mjög afgerandi hætti í grein í Fréttablaðinu. Áður hafði til að mynda Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tekið með afgerandi hætti undir þessi sjónarmið.

Ég ætla ekki að verja miklum tíma í að ræða um þessa almennu skuldaleiðréttingu en hún er útlistuð hér í greinargerð. Ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að tala mikið um þetta núna er sú að ég hef margoft farið yfir mikilvægi og kosti slíkrar nálgunar.

Ég ætla að segja nokkur orð um lið 2 sem er vaxtalækkun. Vaxtalækkun er orðin mjög brýn fyrir mjög löngu síðan og er í raun óskiljanlegt að vöxtum sé haldið jafnháum og raun ber vitni þegar lönd víðast hvar í kringum okkur eru með vexti rétt rúmlega 0%. Þetta mun vera gert eftir því sem Seðlabankinn segir til þess að verja gengi krónunnar en þegar hafa mjög margir bent á að þetta geri þveröfugt, þetta veiki gengið, enda höfum við séð að þegar vextir hafa lækkað örlítið styrkist gengið frekar en hitt. Það sem er jafnvel verra er að með þessu borgar ríkið gríðarlegar upphæðir fyrir að halda fjármagni úr umferð. Það borgar fyrir að halda fjármagni úr til að mynda atvinnuuppbyggingu vegna þess að fólk og fyrirtæki leggja peningana inn í bankann. Hvað gera bankarnir? Þeir taka peningana og geyma þá í Seðlabankanum þar sem þeir fá greidda miklu hærri vexti og græða alveg svakalega á þessum vaxtamun. Ríkið er því í rauninni að borga fyrir að halda niðri fjárfestingunni.

Menn þurfa að ná samstöðu um stöðugleika í verðlagi líkt og gerðist á sínum tíma með þjóðarsáttinni. Þar þarf ríkið náttúrlega að byrja á því að sýna gott fordæmi með því að hækka ekki gjöld og neysluskatta vegna þess að þessar hækkanir á neyslusköttum hafa orðið til þess að hækka til að mynda verðtryggð fasteignalán almennings verulega um milljarða á milljarða ofan. Það þýðir að verið er að borga meira inn í þessa banka sem eru í eigu erlendra vogunarsjóða og í raun er verið flytja fjármagn í auknum mæli úr landinu.

Það þarf að ráðast strax í atvinnuskapandi framkvæmdir. Það er í rauninni ótrúlegt hversu lítið hefur gerst í því vegna þess að þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa töluðu mjög mikið um atvinnuskapandi, mannaflsfrekar framkvæmdir fyrir kosningar. Mig minnir að talað hafi verið um sjö þúsund störf í því sambandi, sem hefur heldur farið fyrir lítið, finnst mér.

Svo er rætt um að áhættu verði skipt milli lánveitenda og lántaka. Hér er verið að tala um verðtryggingu og ábyrgðir í lántöku. Reyndar er nú þegar komin vinna af stað við þetta mál því að nú er búið að fallast á að skipa nefnd sem mun undir forustu Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, vinna að þessu verkefni.

Nr. 6 er tillaga um að breyting verði á fyrningarfresti krafna. Þetta hefur töluvert verið rætt að undanförnu og er mjög mikilvægt mál því að auðvitað munu almennar aðgerðir ekki duga til þess að bjarga öllum og einhverjir, því miður, munu komast í þrot. En þá er mikilvægt að það fólk hafi tækifæri til þess að byrja aftur að ekki allt of löngum tíma liðnum.

Nr. 7 varðar meðferð banka á rekstrarfélögum. Þetta hljómar kannski ekki spennandi en er gríðarlega mikilvægt mál því að nú er stór hluti fyrirtækja rekinn af bönkum og þau fyrirtæki eru með gríðarlegt forskot á önnur fyrirtæki. Hættan er sú að þetta eyðileggi þau fyrirtæki sem þó eru enn í lagi. Það væri stórskaðlegt fyrir íslenskt efnahagslíf. Við höfum þegar séð nokkur varhugaverð dæmi, til að mynda að fyrirtæki sem eru rekin af bönkunum eða jafnvel af ríkjum í gegnum bankana fara í samkeppni við einkarekin fyrirtæki sem síðan hafa komist í þrot. Það þarf að koma í veg fyrir slíkt.

Nr. 8 varðar nýtingu sérfræðiráðgjafar og að skapa stöðugleika í stjórnsýslunni. Hér komum við að málinu sem var til umræðu áðan, stöðugleika í stjórnsýslunni, en honum verður varpað fyrir róða, því miður, með tillögum um breytingar á Stjórnarráðinu. Það þarf þvert á móti að skapa stöðugleika og nýta sérfræðiþekkingu sem best. Það er nokkuð sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt mikla áherslu á, að sérfræðiþekking sé nýtt hvaðan sem hún kemur, hvort sem það eru samflokksmenn eða aðrir sem hana hafa.

Nr. 9 er gerð langtímaáætlana í ríkisútgjöldum. Þetta væri hægt að tala um lengi og er áhugavert og mikilvægt atriði en því miður er tíminn á þrotum.

Ég ætla rétt að nefna í lokin það síðasta, ríkisfjármálin og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við sjáum nú hversu brýnt er orðið að leita annarra leiða og raunar sjáum við líka að þær leiðir eru til staðar.

En þessi nefnd mun vinna úr því að nýta þær leiðir og það verður spennandi að sjá hverju hún skilar af sér núna í haust.