138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

663. mál
[16:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef löngum verið talsmaður þess að gott samstarf sé á milli stjórnvalda annars vegar og aðila vinnumarkaðar hins vegar. Ég hef reynslu af því sjálfur eiginlega úr tveimur áttum, frá stjórnvöldunum séð og einnig frá verkalýðshreyfingunni, en ég var formaður í BSRB í rúma tvo áratugi og kom iðulega að slíku samstarfi. Ég nefni þar þjóðarsáttina í upphafi 10. áratugar síðustu aldar og núna hefur samstarf af þessu tagi formgerst í svokölluðum stöðugleikasáttmála. Enda þótt ég sé hlynntur slíku samstarfi hefur það líka ákveðna vankanta. Við þurfum að fara mjög varlega hvað lýðræðisþáttinn áhrærir. Þannig gerist það t.d. í stöðugleikasáttmálanum að stjórnvöld semja beint við aðila vinnumarkaðar og koma síðan með afurðina hingað inn í þing þar sem Alþingi er í reynd stillt upp við vegg með gerðan samning. Þetta getur verið mjög afdrifaríkt. Það er mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtök séu meðvituð um þessa lýðræðislegu vídd í málunum.

Ég hef sjálfur reynslu af því að menn hafi ætlað að ganga of langt. Ég minnist þess haustið 2008 á magnþrungnum fundi í ráðherrabústaðnum þar sem fulltrúar þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, tóku á móti fulltrúum verkalýðshreyfingar. Þeir buðu upp á það undir miðnættið að fyrir sólarupprás hefði verið gengið frá samningi með skuldbindingu um að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er staðreynd. Lýðræðislegt? Að sjálfsögðu ekki.

Var lýðræðislegt að fallast á það við aðila vinnumarkaðar að settur yrði á fót svokallaður endurhæfingarsjóður sem mun taka til sín ígildi alls fjárframlags sem fer til heilsugæslunnar á gervöllu höfuðborgarsvæðinu á ári, tæpa 3 milljarða kr., án þess að umræða um slíkt færi fram í Alþingi þegar í ofanálag er um að ræða kerfisbreytingu sem máli skiptir? Ég ætla ekki að víkja að öðrum þætti þessa máls sem er atvinnuþátturinn og atvinnustefnan, sem einnig þarf lýðræðislega aðkomu og mun lýðræðislegri en boðið hefur verið upp á í þessum svokölluðu samráðsferlum sem efnt hefur verið til á undanförnum áratugum.

Er ég þá kominn að þessari þingsályktunartillögu sem mér finnst vera tilraun — (Forseti hringir.) Ég hef ekki lokið máli mínu.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður …)

Ég á stutt eftir en ég mun ljúka máli mínu.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður lýkur máli sínu að lokinni þeirri stuttu athugasemd.)

Það er meira en stutt athugasemd, þetta eru nokkrar setningar.

Þá er ég kominn að þessari þingsályktunartillögu sem gengur út á það að glæða eða gæða þessa hugsun um samráð nýju lífi og efna til víðtækara samstarfs þar sem lýðræðisþátturinn er betur tekinn inn vegna þess að í þessari þingsályktunartillögu er gert ráð fyrir þverpólitískri aðkomu að málinu, og ekki bara ríkisins heldur er einnig vísað til sveitarfélaganna. Það er vísað til Bændasamtakanna, að vísu líka til fjármálafyrirtækja en ég hef um það ákveðnar efasemdir. Ég vildi hafa þarna inni Öryrkjabandalagið, Félag eldri borgara o.s.frv.

Ég tek undir þessa meginhugsun sem fram er sett í þessari þingsályktunartillögu og ég tek einnig undir flest þau stefnumarkmið sem hér eru sett á blað og lýsi stuðningi við að við ræðum þessa hugmynd betur, þróum hana áfram hér í þinginu vegna þess að ég held að hún geti orðið til góðs.