138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[16:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Eins og kunnugt er voru samþykkt á Alþingi ný vatnalög að ég hygg í mars árið 2006. Málið var ákaflega umdeilt en frumvarpið var lagt fram af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur. Undir lok málsmeðferðarinnar á þinginu varð samkomulag um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að skipuð yrði nefnd til að fara yfir helstu ágreiningsefnin sem upp höfðu komið í tengslum við meðferð málsins á þinginu. Sú nefnd var skipuð þann 15. janúar 2008 undir forustu þáverandi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Ég átti sæti í þeirri nefnd ásamt m.a. hæstv. iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur og fyrrverandi hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Sú nefnd skilaði af sér skýrslu sem ég er með hér í höndunum, skýrslu vatnalaganefndar sem er upp á einar 215 blaðsíður. Skýrslan er samantekt á ýmsum þeim atriðum sem tekin voru til umfjöllunar á þinginu í því mikla málþófi sem stjórnarandstaðan á þeim tíma stóð fyrir til þess að berjast gegn því að lögin tækju gildi. Það varð úr að gildistöku laganna var frestað og þau hafa ekki enn tekið gildi.

Ýmislegt hefur verið sagt um þessi lög og að mörgu leyti tel ég að yfirlýsingar ýmissa hv. þingmanna séu ekki alveg í samræmi við raunveruleikann eins og hann er. Ýmsar rangfærslur hafa verið hafðar uppi í málinu og að mínu mati hefur verið kynt undir mikla óánægju í tengslum við lögin án þess að full ástæða væri til.

Ég gekk til þessa nefndarstarfs fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins fullur sáttarhugar til að reyna að ná þverpólitískri niðurstöðu í þessu mikla deilumáli. Nefndin lagði til fjórar tillögur sem fram koma í þeirri skýrslu sem ég hef hér í höndunum. Í fyrsta lagi að réttindaskilgreining 4. gr. vatnalaga yrði endurskoðuð. Í öðru lagi að markmiðsákvæði laganna yrði endurskoðað. Í þriðja lagi að stjórnsýsla vatnamála yrði endurskoðuð og í fjórða lagi að gildistöku vatnalaganna yrði frestað meðan nefnd ynni að því að semja tillögur að nýju frumvarpi eða breytingum á þeim lögum sem samþykkt voru árið 2006.

Eins og áður segir gengum við sjálfstæðismenn fullir sáttarhugar að þessum breytingum. Því hefur verið haldið fram hér í umræðunni, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að með hinu nýja frumvarpi hafi þáverandi ríkisstjórn ætlað að einkavæða vatnið, en ég vil benda hv. þingmanni á það að á bls. 165 í skýrslu nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi minnir nefndin á þann löggjafarvilja að baki samþykkt vatnalaga nr. 20/2006 að ekki yrði um að ræða breytingu á inntaki réttinda landeigenda frá núgildandi rétti. Eins og áður segir virðist um þetta almenn samstaða.“

Það var sem sagt almenn samstaða um það í nefndinni að við sem að þessum lögum stóðum ætluðum ekki að breyta inntaki eignarheimilda landeigenda yfir vatnsréttindum á þeim jörðum sem um getur. Ætli það séu ekki um það bil 30% af öllu landi á Íslandi, 70% eru í eigu ríkisins.

Það er þannig að samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru og hafa verið frá árinu 1923 hafa ákvæði þeirra laga tryggt vatnsréttarhöfum réttindi yfir þeim vatnsréttindum sem á fasteign þeirra finnast. Það sést best á því að þegar slík vatnsréttindi hafa verið skert með einhverjum hætti hafa eigendur þeirra fengið bætur sem leiða af lögum um eignarnámsbætur og 72. gr. stjórnarskrárinnar sem ver eignarrétt manna. Um þetta þarf ekki að rífast vegna þess að fyrir þessu liggja fjölmörg dómafordæmi Hæstaréttar og um þennan skilning hafa allir helstu sérfræðingar á sviði eignarréttar fjallað á þessari öld og þeirri síðustu. Má þar nefna prófessorana Ólaf Lárusson og Ólaf Jóhannesson, dr. Gauk Jörundsson, Þorgeir Örlygsson, Eyvind G. Gunnarsson og Sigurð Líndal.

Það er því rangt sem haldið hefur verið fram í tengslum við þetta mál að menn hafi með samþykkt vatnalaganna frá 2006 ætlað að breyta einhverju varðandi það réttarástand sem gilt hefur um yfirráð landeigenda yfir vatni frá því sem verið hefur frá árinu 1923.

Í kjölfarið lagði nefndin sem ég átti sæti í til að gildistöku vatnalaga frá 2006 yrði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð yrði á vegum iðnaðarráðherra og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra ynni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar. Því voru það mikil vonbrigði þegar frumvarp til afnáms vatnalaga var lagt fram á þingi áður en hið nýja frumvarp leit dagsins ljós. Með því að haga málum þannig og vinnubrögðum má segja að ríkisstjórnarflokkarnir hafi rofið þá ágætu þverpólitísku sátt sem við sem sátum í vatnalaganefndinni, og reyndum að ná þverpólitískri niðurstöðu um framtíðarskipan vatnamála, höfðum náð. Nú er lagt til að lögunum verði enn og aftur frestað þar til nýtt frumvarp til vatnalaga liggur fyrir. Ég tel, eins og ég sagði við (Forseti hringir.) 1. umr. málsins, að það sé rétta málsmeðferðin í þessu máli og ég hlýt að fagna henni.