138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[16:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma upp og segja nokkur orð í sambandi við vatnalögin en ég ætla þó að geyma efnislega umræðu um þau þangað til við tökum þá umræðu í þinginu. Ég vil jafnframt byrja á því að taka undir og gleðjast yfir því að við skyldum ná samkomulagi um að fresta gildistöku vatnalaganna frá 2006 og reyna að ná sátt um þetta mikilsverða mál, en eins og fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum urðu talsvert mikil átök á þinginu 2005/2006 um vatnalögin. En ef skoðaðar eru umsagnir, sem sjálfsagt er að gera og ég er með þær hjá mér, frá Umhverfisstofnun, Bændasamtökunum, Lögmannafélaginu, Landssambandi veiðifélaga og fleiri aðilum, sér maður kannski að umræðan í fjölmiðlum og seinna meir hefur orðið eins og stormur í vatnsglasi og lögin frá 1923 eru enn í gildi og þeir dómapraxísar sem þar hafa gilt eru enn í gildi. Engu að síður var skipuð vatnalaganefnd á sínum tíma og hún komst að því m.a. að rétt væri að gera nokkrar endurbætur á vatnalögunum þar sem ekki þótti tryggt að fullnægjandi tillit yrði tekið til hagsmuna almennings tækju lögin gildi óbreytt. Og ég vil lýsa því yfir að við framsóknarmenn munum styðja slíka endurskoðun til að tryggja það að þeir hagsmunir almennings séu tryggðir. Jafnframt því að menn töldu að ekki væri fullnægjandi tillit tekið til hagsmuna almennings var mat vatnalaganefndar það að vænlegt til að skapa sátt í samfélaginu, sem alls ekki var á þessum tíma, væri að réttarreglur um vatn og vatnsréttindi yrðu leiddar í lög með heildstæðum hætti þar sem litið væri til ólíkra hagsmuna sem við auðlindina væru bundnir. Áleit nefndin nauðsynlegt að vatnalög, sem eins konar grundvallarlög um vatn og vatnsréttindi tækju með fullnægjandi og samræmdum hætti mið bæði af hagsmunum landeiganda og almennings, þannig að af lögunum yrði ráðið að hvaða leyti réttindi annars aðilans lytu takmörkunum vegna hagsmuna hins. Það er gríðarlega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu. Þær tillögur vatnalaganefndar lutu einkum að fimm þáttum. Ég tel mjög mikilvægt að við þingmenn komum okkur saman um að vinna á sambærilegan hátt og vatnalaganefndin gerði, að reyna að ná þverpólitískri sátt um það og ljúka þessu máli svo að lögin frá 1923 megi skýra enn frekar því að auðvitað hefur ýmislegt gerst frá þeim tíma, þó svo að dómapraxísinn hafi gert það að verkum að ekki hefur komið til neinna stórvandræða í raun og veru.

Ég vil þó nefna það í þessu samhengi, af því að við höfum gjarnan talað um að við séum að reyna að líta til Norðurlandanna um norrænt hagkerfi, á hið blandaða hagkerfi og hvernig það lítur best út, að ég hef aðeins farið í gegnum norsku vatnsréttarlögin sem og þau dönsku. Í Danmörku eru um 2.700 vatnsveitur og þar af eru 2.550 í einkaeigu en aðrar eru í eigu sveitarfélaga. Sérstök lög sem sett voru á árunum 2008 og 2009 í Danmörku um vatnsréttindi og fjármál vatnsveitna þar sem m.a. er sett þak á gjaldheimtu þeirra sem á að fara með vatnsréttindin taka tillit til 130 einkavatnsveitna sem dreifa yfir 200 þús. rúmmetrum af vatni. Hér á landi eru, ef ég man rétt, 60 ef ekki nær 70% af vatninu í eigu opinberra aðila, þ.e. sveitarfélaga eða ríkis eða samfélagsveitna. Við þurfum að hafa það í huga þegar við förum í þessa umræðu að það er langur vegur frá þeim öfgum sem heyrast á báða bóga, ekki síst að við séum hér að fara að einkavæða vatn, og við þurfum að taka tillit til hagsmuna allra aðila. Ég fagna því að málið er komið í þennan farveg og við framsóknarmenn munum glaðir taka þátt í því að tryggja réttindi allra í þessu máli.