138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[17:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls lögðum við sjálfstæðismenn til að málinu væri vísað frá vegna þess að það væri illa unnið og vanbúið. Við verðum hér vitni að því að það stefnir í að ríkisstofnun sé lögð niður án þess að nokkuð liggi fyrir um hvert hin lögbundnu verkefni hennar eiga að fara eða hvernig að þessu skuli staðið. Við leggjum til hér við 3. umr. í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir að málið fari svona í gegn þá breytingartillögu að hæstv. utanríkisráðherra skipi verkefnisstjórn sem geri tillögu til ráðherra um ráðstöfun verkefnanna og niðurlagningu stofnunarinnar. Þessi starfshópur mundi síðan skila frumvarpi til hæstv. utanríkisráðherra sem hægt yrði að leggja fram á haustþingi. Við teljum að þetta væri mun betri leið til að ná fram markmiðum um að hagræða og breyta (Forseti hringir.) verkefnum, færa þau saman milli stofnana ríkisins. Því hvet ég eindregið til þess að þessi breytingartillaga okkar verði samþykkt.