138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[17:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við sjálfstæðismenn stöndum að því að þetta frumvarp kemur fram hér í þinginu, við styðjum að það fari áfram og að við tökum það jafnframt til skoðunar á milli 2. og 3. umr. Ég fagna því. Hér er um að ræða að við reynum að smíða úrræði fyrir þær fjölskyldur sem eiga tvær fasteignir og hafa setið uppi með að ná ekki að selja. Það er talsvert flókið að reyna að finna lausn á þessu að mínu mati en nefndin hefur unnið vel að því að móta þetta úrræði þótt enn þurfi aðeins að fara yfir það. Ég fagna því enn og aftur að þessi dagur sé kominn, að við náum að vísa þessu áfram.

Varðandi þær athugasemdir að enn sé ekki búið að leysa skuldavanda heimilanna er það að sjálfsögðu rétt sem hér hefur komið fram að við erum að reyna að samþykkja úrræði sem aðstoða þær fjölskyldur sem verst eru settar. Talsverð vinna er óunnin við að ná því markmiði að forða því að fleiri þurfi að notfæra sér þessi úrræði.