138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[17:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er ekki alls kostar sáttur við það frumvarp sem ég stend að. Það var unnið í miklum flýti og ég vil gjarnan vinna á því ákveðna bragarbót. Hins vegar skora ég á alla hv. þingmenn að skoða í þeirri viku sem við höfum þessi þrjú eða fjögur frumvörp nákvæmlega með tilliti til eignarréttar, framkvæmdar og þess hversu vel tekst að gera þetta lipurt. Það skiptir öllu máli að þessi úrræði verði lipur þegar þar að kemur, að umsóknin verði einföld og allt ferlið verði lipurt, því dómskerfið og umboðsmaður skuldara þurfa að ráða við mjög mikið magn af umsóknum. Það verður að vera eins rökrétt og hægt er.

Ég skora sem sagt á alla hv. þingmenn og aðra sem reynslu hafa af þessum málum að hafa samband við félags- og tryggingamálanefnd, eða nefndarmenn í henni, og benda á galla eða eitthvað sem betur má fara í framkvæmdinni.