138. löggjafarþing — 146. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[17:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að verið sé að greiða atkvæði um að fresta gildistöku vatnalaganna frá árinu 2006 enn frekar. Með því er verið að standa við það þverpólitíska samkomulag sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka í vatnalaganefnd gerðu með sér. Það stóð ekki til í upphafi af hálfu ríkisstjórnarinnar að standa við þetta samkomulag og ýmis orð hafa verið látin falla um áhrif hinna nýju laga. En eins og ég las nú upp úr skýrslu vatnalaganefndar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka áttu aðild að að semja þá liggur fyrir að með nýju vatnalögunum frá 2006 stóð ekki til að gera neinar efnisbreytingar á réttindum vatnsréttarhafa frá (Forseti hringir.) gildandi lögum frá 1923. Þannig að ýmsar fullyrðingar sem m.a. hv. þingmaður hefur haft í frammi um að með því hafi átt að einkavæða vatnið (Forseti hringir.) og ég veit ekki hvað og hvað standast ekki eins og flokkssystir (Forseti hringir.) hans staðfesti í þessari skýrslu. (Gripið fram í.)