138. löggjafarþing — 146. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[17:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég mun segja já við þessu og við framsóknarmenn erum ánægðir með að þessi leið skuli vera farin, leið sátta. Það er nauðsynlegt að fara yfir þetta, m.a. til að tryggja almannarétt, en það er líka nauðsynlegt að fara yfir þetta til að átta sig á því um hvað þetta mál hefur snúist. Ég held að umræðan hafi farið út í öfgar.

Við höfum talsvert rætt um það hér í þingsal að við séum á norrænni leið. Ég hef kynnt mér vatnsréttindi og vatnalög bæði í Noregi og í Danmörku. Í því sambandi vil ég nefna að í Danmörku eru 2.700 vatnsveitur, þar af eru 2.550 í einkaeigu, þar af eru 130 þeirra sem dreifa meira en 200.000 rúmmetrum af vatni á ári. Á Íslandi eru vatnsréttindi í höndum opinberra aðila, ríkis, sveitarfélaga og í samfélagslegri eigu, á milli 60 og 70%, nær 70, þannig að við skulum ræða þetta skynsamlega og taka á hagsmunum allra til hlítar í þessari sáttaleið.