138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[10:30]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Félags- og tryggingamálanefnd tók við ákveðnum pakka um sértækar aðgerðir hér fyrir jól frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og þar tókum við nokkuð góða stefnu því að sumir vildu meina að þetta væri lokapunktur og ekkert meira yrði gert. En við sögðum í nefndinni: Þetta er lifandi löggjöf. Við ætlum að halda áfram að meta hana, hvernig hún virkar, hverjum hún kemur vel, hverjir eru hugsanlega út undan. Ég held að þetta sé vegvísir okkar áfram, þ.e. við erum að ræða í dag þessar sértæku aðgerðir sem sannarlega eru til bóta enda hafa nefndarmenn sameinast um að vinna þær og gera sem best úr garði, þetta er lifandi löggjöf. Við verðum að halda áfram að meta hvað kemur út úr þessu og hverjum það gagnast og sjá hverju vindur fram.

Ég hef í fleiri mánuði sagt að ég sé fylgjandi almennum aðgerðum en nú þurfum við sjá hvernig þessi úrræði nýtast. Þau eiga að nýtast þeim sem verst standa og þurfa nauðsynlega á hjálp að halda. Það er okkar leiðarljós áfram því að við verðum auðvitað líka að tala um það með ábyrgum hætti sem mögulegt er að gera og það sem ekki er hægt að gera.