138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[11:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi medalía hefur tvær ef ekki þrjár hliðar. Annars vegar eru skuldarar sem taka peninga að láni, þ.e. flýta neyslu sinni. Þeir kaupa eitthvað sem þeir eiga ekki fyrir og taka til þess lán svo þeir geti flýtt neyslu sinni. Á móti þarf alltaf einhver að vera sem frestar neyslunni, sparifjáreigandi sem sumir kalla fjármagnseiganda í niðrandi tón. Íslendingar hafa í áratugi, hálfa öld, tekið erlent sparifé að láni og núna súpa þeir seyðið af því. Núna fáum við ekki lán erlendis og þá er númer eitt, tvö og þrjú að reyna að treysta á innlendan sparnað. Það talar enginn í þessum sölum — ég man ekki til þess — um vandamál sparifjáreigenda.

Hvað skyldi vera að gerast núna? Vextir eru 2–2,5% í 7% verðbólgu. Fólk tapar. Sá sem gat keypt skíði fyrir ári getur ekki lengur keypt skíði með því að fresta neyslu á skíðum. Og þetta er skattlagt. Tapið er auk þess skattlagt og það er verið að auka skattlagninguna úr 10% í 18%. Hvað gerist ef menn nenna ekki lengur að spara og kaupa bara skíðin strax? Hvar skyldu þá lántakendur fá lán og hvar skyldu fyrirtæki fá lán og áhættufé til að byggja upp störf? Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson.