138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[11:09]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hægt að nálgast þetta með ýmsum hætti. Ef ég á peninga og ætla að biðja hv. þingmann um að geyma þá, hvað get ég farið fram á að hann greiði mér mikið fyrir? Það mætti snúa þessu við og spyrja hvort ég ætti ekki að greiða honum fyrir að passa upp á peningana mína. Staðreyndin er sú að það hefur enginn andmælt því að það séu lagðir vextir á fjármagn. Spurningin er hversu miklir þeir eru og á hvaða kjörum. Þegar þeir eru eins háir eins og verið hefur á Íslandi núna í tvo áratugi gerist það að verðmæti eru flutt frá heimilunum og frá framleiðslunni yfir til fjármagnsins. Það hefur verið að gerast á Íslandi og það er þetta ójafnvægi sem við viljum taka á.

Síðan er það hitt að það hefur orðið forsendubrestur í íslensku samfélagi. Fjármálakerfið okkar hefur hrunið. Hvað þýðir það? Það þýðir tekjuhrap hjá ríkissjóði, sveitarsjóðum og heimilunum, kaupmátturinn þverr og það eru minni peningar. Með öðrum orðum, allar efnahagsstærðir í þjóðfélaginu eru að rýrna nema ein, þ.e. þeir sem lána peninga. Þeir eru með allt sitt á þurru með verðtryggingu og háum vöxtum. Ég er einfaldlega að segja að fjármagnið verður að vera hluti af samfélaginu að þessu leyti. Við Íslendingar höfum hrunið í tekjum og við verðum að dreifa byrðunum á réttlátan máta. Það er málið.

Ég hef fram til þessa ekki andæft verðtryggingunni, einfaldlega vegna þess að á verðtryggðum lánum hafa hvílt lægri (Forseti hringir.) raunvextir en á óverðtryggðum. Þegar lánið er hins vegar gert upp endanlega (Forseti hringir.) er það miklu dýrara þannig að í þessu er fólgin ákveðin mótsögn.