138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[11:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hér var talað af mikilli lotningu um Lögmálið, með stórum staf, framboð og eftirspurn. Ég vil minna hv. þingmann á að við erum samfélag og við tökum sameiginlega á vanda samfélagsins. Ég er líka sparifjáreigandi, það er hv. þingmaður og flestir hér inni. Ég greiði í lífeyrissjóð tæp 20% af öllum tekjum mínum, þ.e. í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eins og við gerum öll hér og í séreignarsjóð eins og við höfum heimild til. Það gera 19,5% af heildartekjum. Hvað þýðir það? Það þýðir að í fimm daga vinnuviku vinnum við einn dag fyrir lífeyrissjóðinn. Við setjum peningana okkar í sparnað í lífeyrissjóðinn. Ég vil láta nota þessa peninga mína á ábyrgan hátt í þágu samfélagsins. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að lífeyrissjóðirnir stilltu vaxtakröfum og arðsemissjónarmiðum í hóf. Ég var andvígur því ákvæði lífeyrissjóðslaganna sem skyldar þá til að sækjast alltaf eftir hæstu arðsemi. Þeir eiga að hugsa líka samfélagslega og til langs tíma. (Gripið fram í.)

Nú eru þessir peningar í bönkunum og bíða eftir að komast á beit, verða að gagni í samfélaginu og styrkja samfélag okkar. Sterkir lífeyrissjóðir í dauðu efnahagskerfi glata fljótt styrk sínum og verða að engu. Þess vegna mælist ég til þess að við horfum heildstætt og af ábyrgð á þessi mál í samfélagslegu samhengi en ekki út frá þröngum, agnarsmáum músarholusjónarmiðum sparifjáreigandans. Auðvitað þarf að hyggja að hans hagsmunum líka og það (Forseti hringir.) viljum við gera. En við gerum það ekki með því að keyra vaxtabyrðina upp (Forseti hringir.) í verðtryggðu kerfi sem gengið hefur sér til húðar.