138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

671. mál
[11:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Þetta er sennilega það frumvarp sem mest er breytt frá því fyrir átta dögum þegar við sjálfstæðismenn báðum um frest til að fara í gegnum þessi mál. Mér sýnist að tekist hafi að gera ferilinn allmiklu hraðvirkari og jafnframt skilvirkari, hann er betri og hraðari, það er einmitt markmiðið. Þetta sýnir því að menn þurfa að vanda töluvert mikið til svona lagasetningar.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Það eru felldar niður margar greinar og hluti af greinum og lögin verða eiginlega helmingi styttri og markvissari. Ég held að þetta sé gott mál sem hér hefur náðst, ég vona að þetta sé núna orðið eins gott og það getur orðið, þetta má reyndar alltaf bæta. En ég vil taka undir þakkir til nefndasviðs Alþingis sem hefur unnið ótrúlegt afrek við erfiðar aðstæður við að semja þessi frumvörp upp á nýtt með aðstoð þingmanna í nefndinni. Ég vona að þetta séu ný vinnubrögð á Alþingi. Ég hef lagt þetta til eiginlega frá því að ég kom inn á þing 1995 og tel að þingnefndir eigi að flytja mál, þær eigi að fá beiðni um það frá ráðuneytum, samtökum og einstaklingum og síðan að taka ákvörðun um hvort þær vilji flytja málin eða ekki. Það tel ég vera hárrétt og þar sem Alþingi hefur löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið getur það flutt þá starfsmenn sem eru í ráðuneytunum og úti um allt að semja frumvörp yfir á nefndasvið Alþingis.